Síðasta miðvikudag, vetrardaginn síðasta, tókum við okkur saman nokkur sem höfum kynnst í gegnum miðilinn Snapchat og ákváðum að fagna komandi sumri og gera okkur glaðan dag.
Mörg okkar voru að hittast í fyrsta skiptið þrátt fyrir að hafa talað mikið saman í gegnum Snapchat. En þessi skemmtilegi miðill gerir manni kleift að geta kynnst fólki með sameiginleg áhugamál og fylgjast með daglegu lífi hjá þeim sem manni þykja áhugaverðir.
Ég ákvað fyrir rúmu hálfu ári að gera minn aðgang opinn fyrir almenning og hef ég ekki séð eftir því, enda kynnst fullt af ótrúlega áhugaverðu og skemmtilegu fólki sem ég á í daglegum samskiptum við í dag.
Við tókum okkur saman og byrjuðum kvöldið á því að hittast heima hjá mér þar sem boðið var upp á ýmislegt matarkyns sem og aðrar sterkari veigar fyrir þá sem ekki höfðu nein mikilvæg plön næsta morgun. Þema kvöldsins var „glimmer“ og skreytti ég íbúðina í hæfi við það. Einnig fóru allir gestir vel glimmeraðir út úr partýinu, konur sem karlar! Enda er aldrei of mikið af glimmeri…
Förinni var svo haldið áfram niður í miðbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið á Gaukinn þar sem búið var að setja upp alvöru karóki græjur og þeir allra hörðustu (eða þeir sem höfðu fengið sér í báðar tærnar) reyndu fyrir sér sem atvinnu söngvarar.
Kvöldið var hrikalega skemmtilegt og einstaklega vel heppnað! Enda allir yndislegir með tölu sem mættu.