Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir er ein bloggaranna á Ynjum. Fyrir nokkru síðan skrifaði hún fallegan pistil en skömmu eftir að hún birti hann lést afi hennar, umvafinn fjölskyldu og góðu hjúkrunarfólki.
Síðustu daga hef ég mikið verið að hugsa um eldra fólkið í lífi okkar. Ég er svo heppin að ég á tvo afa sem eru á lífi, þeir eru dásamlegir, alltaf glaðir að sjá okkur, alltaf svo þakklátir fyrir heimsókirnar. En ég eins og svo margir aðrir hef ekki verið nógu dugleg að heimsækja þá. Af hverju? Ég hreinlega veit það ekki, það er ekki eins og ég þurfi að gera eitthvað mikilvægara, það er ekki eins og það sé alltaf brjálað að gera hjá mér. En einhvernveginn eru heimsóknirnar samt allt of fáar.
Annar afa minna býr á elliheimili, hann hefur allt sitt líf verið mjög hraustur og mjög sjaldan orðið veikur. Hann vann mikið og var ofsalega duglegur, hann var vélstjóri og ökukennari, hann á 7 börn, fullt af barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann hefur alltaf verið ofboðslega góður við alla og á þar af leiðandi allt gott skilið. Hann á það svo sannarlega skilið að ég heimsæki hann miklu oftar, að ég hugsi um hann eins og hann um mig þegar ég var barn. Það var aldrei leiðinlegt þegar hann kom í heimsókn, alltaf gaf hann sér tíma til að fara með mér á rúntinn og alltaf keypti hann eitthvað gott í gogginn. Hann gaf sér alltaf tíma til að eyða með mér!
Nú er hann kominn yfir nírætt, heilsunni hefur hrakað upp á síðkastið og nú síðast fyrir nokkrum dögum hrakaði henni mikið. Við vorum viss um að nú væri komið að því, allir í fjölskyldunni lögðu hendur saman og pössuðu að hann væri aldrei einn. Allir pössuðu að sjá til þess að honum liði sem best og allt var gert til að hjálpa honum að líða betur. Á svona tímum sér maður hvað fjölskylda manns er dásamleg.
En eitt stakk mig og eflaust alla, þjónustan á heimilinu sem hann var á var eitthvað athugaverð. Erfiðlega gekk á tímabili að fá fulla þjónstu svo honum liði sem best og svo að möguleiki væri á því að honum batnaði. Það var eins og það væri bara búið að ákveða að hann væri að fara og það ætti ekkert að gera til að hjálpa honum að vera lengur eða bara passa að honum liði sem best. Hugsunin sem mér fannst vera hjá þeim aðilum sem áttu þátt í þessu var ,,Drífðu þig að deyja við þurfum plássið”. Sem betur fer erum við með kjarnakonu í fjölskyldunni sem lét engan komast upp með neina svona stæla, maðurinn ætti alla þá hjálp að fá sem hann þyrfti og þannig varð það.
Ég ætla ekkert að fara út í það hvað það var sem gekk á, eða hvað hann vanhagaði og hvers vegna. Það sem mig langar að koma frá mér er að mér finnst virðingin gagnvart eldra fólki vera allt of lítil. Við erum ekki að hugsa nógu vel um fólkið sem hefur hugsað svo vel um okkur. Það skiptir ekki máli hvort þú ert 20, 30 eða 100 ára, þú átt alveg jafn mikinn rétt á því að lifa. Þú átt alveg jafn mikinn rétt og hver annar þó þú sért veikur eða gamall. Við verðum flest gömul og þegar við verðum gömul viljum við að það sé hugsað vel um okkur. Við viljum ekki vera geymd og gleymd inni á elliheimili með fólki sem bíður eftir að plássið losni svo annar komist inn. Ekki misskilja mig samt, það er fullt af dásamlegu fólki að vinna á elliheimilunum, fullt af fólki sem hugsar rosalega vel um fólkið okkar. Það er líka yndislegt fólk sem hugsar um afa, en því miður inn á milli virðist líka vera eitthvað af starfsfólkinu sem gerir það ekki nógu vel.
Við vorum heppin, með meiri aðstoð byrjaði afa að líða miklu betur, hann varð hann aftur, hann þekkti okkur og var glaður. Við erum ofsalega glöð að sjá hversu vel honum líður og þetta kveikir svo sannalega á perunni hjá mér að hugsa betur um dásamlegu afa mína. Þeir eiga það svo sannarlega skilið.
Greinin birtist fyrst á Ynjum
Smelltu hér til að lesa meira frá Sylvíu Haukdal Brynjarsdóttur