Þegar árið 2016 fór að styttast í annan endann fór ég að velta því fyrir mér hvað ég vildi gera betur á því næsta.
Ég hef unnið hörðum höndum að því að koma sjálfri mér á þann stað sem ég er á í dag og auðvitað ætlaði ég að halda því áfram en mig langaði að bæta einhverju við, bæta einhverju við fyrir aðra en sjálfa mig.
Hvernig ætla ég svo að fara að því, svo ótal aðferðir til við að gleðja aðra. Pínu meiri „umhugsun” og niðurstaðan var:
Ég ætla hrósa oftar, hlusta betur, vera áfram til staðar og gefa meira af mér.
Þessir þrír mánuðir sem hafa liðið hafa sýnt mér ýmislegt sem ég sá ekki áður.
Til dæmis að maður hrósar allt of sjaldan!
Það er svo auðvelt að sjá hvað gæti farið betur en það sem fer vel fær litla athygli. Að hrósa öðrum er gott, fyrir þann sem tekur á móti og þann sem gefur.
Það er dýrmætt að sjá það góða og fallega í fari annarra og við vitum aldrei hvað eitt lítið hrós getur gert fyrir þann sem tekur á móti því.
Ég hef meira að segja komið sjálfri mér á óvart og hrósað ótrúlegasta fólki fyrir undarlegustu hluti og alltaf liðið vel á eftir.
Þegar ég fór að hlusta betur sá ég fljótt að það fyrsta sem ég ætlaði að breyta væri að leggja frá mér símann, hlusta með augum og eyrum þegar það var talað við mig og hægja á mér. Dýpri og betri samræður eiga sér stað þegar maður er allur á staðnum og þær skilja á sama tíma meira eftir sig.
Ég get með stolti sagt að ég er alltaf til staðar fyrir fólkið mitt bæði í gleði og sorg, því held ég áfram glöð í hjarta.
Að gefa af sér er eins og að gleðja, hægt á svo marga vegu.
Ég ákvað að bæta við einhverju alveg nýju sem væri sérstakt fyrir hvern og einn. Svo í hverjum mánuði gef ég einhverjum eina litla persónulega gjöf. Gjöf sem snertir hjartað og gefur þannig svo mikið.
Við vitum það sem gefum að þeir sem gefa þiggja meira en þeir sem bara þiggja.
Svo kannski á endanum varð þess nýja viðbót mín til þess að gefa mér en meira á árinu sem ég ætlaði að gefa öðrum meira af mér…