fbpx
Sunnudagur 18.ágúst 2024

Fæðingarsaga Andreu: „Til allra mæðra þarna úti, þið eruð hetjur“

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 22. mars 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andrea Sólveigardóttir deilir hér fæðingarsögu sinni frá því að hún eignaðist dóttur sína sem er nú sjö mánaða gömul. Hún var á báðum áttum hvort hún ætti að deila henni en ákvað ríða á vaðið, hún sagði fyrst sögu sína á Króm.is og fékk Bleikt góðfúslegt leyfi að birta hana.

Fæðingarsaga Andreu

Ég er búin að vera á báðum áttum um hvort ég ætti að deila fæðingasögunni minni. Í fyrsta lagi var ég ekki viss um hvort að einhver myndi hafa áhuga á að lesa hana og svo er þetta rosalega persónuleg upplifun og var ég ekki viss hvort ég væri tilbúin að deila henni.

Niðurstaðan er sú að ég elska að lesa svona sögur sjálf, bæði þegar ég var ólétt og núna eftir meðgönguna svo hér er mín saga.. ögn langdregin. Þetta er svo ótrúlega mögnuð upplifun að þótt ég sagðist ekki ætla eignast fleiri börn eftir mína upplifun þá er þetta fljótt að gleymast og breytist sársaukinn í fallega minningar í hvert skipti sem ég horfi á litla fallega kraftaverkið mitt.

Þetta byrjar allt saman þriðjudagskvöld 9. ágúst. Ég var búin að vera drepast í bakinu allan daginn og tengdi ég það við verslunarmanna helgina þegar ég festist í bakinu en alls ekki við þá staðreynd að ég var að fara fæða. Ég var heima hjá vinkonu minni að borða ís og fer heim um miðnætti. Ég var ekki komin lengra en að rúminu þegar ég segi skyndilega við þorbjörn, “VÁ mér er rosalega illt” og þá koma fyrstu alvöru verkirnir. Ég skal sko segja ykkur það að þetta gusaðist svona yfir mig og annan eins verk hef ég ekki upplifað áður. Ég var einmitt búin að vera grínast með það við vinkonur mínar og ljósmóður mína “oh týpískt að þessir verkir fara bara framhjá mér og ég fæði barnið heima á gólfinu” og alltaf fékk ég sömu svör “þessir verkir fara alls ekki framhjá þér!!!!” .. ástæðan fyrir þessu gríni hjá mér er einfaldlega sú að ég var ótrúlega heppin með meðgöngu og blómstraði ég bókstaflega. Það hrjáði mig ekkert og ég var rosalega róleg alla meðgönguna, aldrei þessu vant þar sem ég er rosalega ör að eðlisfari en meðgangan hafði mjög góð og róandi áhrif á mig. Ég var aldrei búin að fá verki svo ég var orðin örlítið örvæntingarfull um að vita hvernig þessir blessuðu verkir væru (ég hefði betur átt að sleppa því að bíða eftir þeim haha).

Það næsta sem ég geri er það að ég ríf upp símann en ég var búin að downloada mjög sniðugu appi til að tímasetja samdrættina. Þetta app heitir “contractions”. Þessir verkir voru óreglulegir en stóðu yfir í ca. 5 klst og þá leist Þorbirni ekki á blikuna enda að mínu mati var ég sárkvalin af þessum skelfilegu verkjum. Við ákváðum því að fara upp á deild því ég var að vonast til að erfa eitthvað frá mömmu minni og fæða barnið eftir nokkra klst. eftir fyrsta verk (mæli EKKI með því að gera ykkur þessar væntingar).

Það tók Þorbjörn smá tíma að sannfæra mig um að fara upp á deild og það fyndna er að þegar ég loksins átta mig á því að þetta gæti verið að gerast tók ég þvílíkt dramakast og fór að hágráta yfir því að allt væri skítugt heima og hvað ég væri bara alls ekki tilbúin í það að fara fæða (mjög eðlilegar pælingar skal ég segja ykkur). Ég lýg því ekki en ég skipa greyið Þorbirni að þrífa eins og hann gat heima.

En í því fólst að taka fötin af þvottagrindinni, búa um og helst skipta um á rúminu, brjóta saman teppið í sófanum (i know) og allskonar vitleysu sem bara óléttar hormónafullar konur skilja. Ég hefði helst viljað að hann hefði skúrað okkur út. Á meðan að greyið kærasti minn óð um íbúðina og tók til stóð ég fram á gangi með hríðar og gólaði og kveinaði þegar þær helltust yfir mig á 3-5 mín fresti. Já ég veit ekkert hvernig ég á að útskýra þetta en svona getur maður verið skrítinn.

Þegar við loksins komum á spítalann förum við í rútínu “check” en þar fékk ég þær skemmtilegu fréttir eftir skoðunina að ég væri ekki komin nema með 1 í útvíkkun. Ég hélt ég myndi gráta enn þá meira. Þetta var bókstaflega eins og í bíómynd og svipurinn á mér staðfesti allar þær tilfiningar sem ég upplifði. Við vorum því send heim með verkjatöflur og mjög leiða ólétta konu. Gaman er að segja frá því að á meðan við vorum í skoðuninni er fæðing í gangi við hliðiná og konan þar öskraði og veinaði og Þorbjörn greyið alveg skelkaður á svip. Ég verð alveg brjáluð út í hann að hann skuli vera reyna hræða mig svona og segi við hann að ég ætla sko ekki að öskra í minni fæðingu ekki séns (þarna skjátlaðist mér big time!!) Ég vill líka taka það fram (veit ekki hvort það sé viðeigandi) en fyrir ykkur sem eruð óléttar að lesa þetta þá segi ég ykkur bara að vera undirbúnar fyrir því að láta skoða hvað þið eruð komnar með mikið í útvíkkun. Það var enginn búin að segja mér frá þeirri skemmtilegu upplifun (ekkert sérstaklega þæginlegt) haha svo be prepared!

Jæja .. ég var send heim með verkjatöflu og sú tafla sló á alla verki. Ég varð alveg BRJÁLUÐ! Búin að vera verkjuð yfir 5 klst og svo hverfur allt, semsagt algjörir plat verkir. Það sem stendur efst í minningunni er að mamma var stanslaust að segja við mig “njóttu tímans áður en barnið kemur”og ég hélt ég myndi skjóta hana. Njóta ?? ég var tilbúin í fæðingu, með verki í 5 tíma og svo hverfur allt, ég hélt sko ekki! Allan miðvikudaginn (daginn eftir) var ég verkjalaus og leið eins og ég væri ekki ólétt ég var svo spræk.

Ég var reið og fúl allan miðvikudaginn því ég var svo tilbúin að fá litlu stelpuna mína í fangið en svo gerist ekkert ekki EINN verkur!! Ég var það reið að þó svo að ég væri ein heima þá skellti ég hurðum af pirring. Ég tók mig þó til og þreif allt hátt og lágt og alla skápa innan sem utan því auðvita var nauðsynlegt að allir skápar væru þrifnir haha en ekki hvað ??

Ballið byrjar síðan aftur á fimmtudeginum en mamma kom eftir vinnu og var svo æst að hún kyngdi varla matnum því hún þurfti að fara heim að skipta um föt (mamma var semsagt með í fæðingunni og vildi vera undirbúin fyrir átökin).

Ég var harðákveðin í því að fara ekki upp á deild fyrr en verkirnir væru með reglulegu millibili (ætlaði sko ekki að vera send heim aftur) en ég játaði mig sigraða aftur um miðnætti. Við förum í sama rútínu tjékk en þegar ljósmóðirin segir við mig að ég sé enn bara með 1 í útvíkkun.. já þið hefðuð ekki viljað vera á staðnum. Ég hreinlega skildi þetta ekki .. í þetta skipti voru samdrættirnir mun verri og ég gat ekki talað þegar þeir skullu á – þeir voru svo átakanlegir. Við erum síðan send aftur heim með verkjatöflu en ég var harðákveðin í því að ég ætlaði sko ekki að taka verkjatöfluna í þetta skiptið.. tók enga sénsa að verkirnir myndu hverfa aftur.

Við Þorbjörn förum heim og ég læt renna í bað kl 02:30 minnir mig – ég hélt að heitt bað myndi slá á verkina (einmitt). Ég man bara að þegar fyrstu samdrættir komu eftir að ég lagðist í baðið að ég grét úr verkjum og bað Þorbjörn um að koma sækja mig strax því ég komst ekki upp úr baðinu og hann þyrti að koma STRAX með verkjatöflurnar því ég bókstaflega gat ekki meir.

Þegar að þessu er komið þá leist Þorbirni ekkert á blikuna og hringdi strax upp á deild (þau voru farin að þekkja okkur á þessum tímapunkti) og síðan brunaði hann með mig strax upp á spítala aftur. Ég var það verkjuð að ég komst varla upp á deild en er síðan lögð inn og fékk morfín til að slaka á. Ég var ekkert búin að sofa né hvílast en maður þarf alla sína orku þegar það kemur að því að fæða blessaða barnið.

Það eina sem ég man eftir af þessari nóttu var elskulega ljósmóðirin sem gaf okkur herbergið okkar. Hún spyr mig hvort ég vildi glaðloft og eftir að ég tók fyrsta “sjússinn” eða andaði að mér í fyrsta skipti langaði mér að giftast henni ég var það ánægð með hana. Þetta glaðloft bjargaði fæðingunni minni nota bene!

Ég náði að hvílast til ca 08:00 eða 09:00 um morguninn þegar verstu verkirnir mættu. Ljósmóðirin mín var ekki lengi að spurja mig um mænudeyfingu og ég var snögg að svara, JÁ TAKK!! Mænudeyfingin var besta ákvörðun sem ég hefði geta tekið á þessum tímapunkti.

Kl. 10:00 á föstudags morgni er ég komin í 3 í útvíkkun, og svo loks var ég komin í 5 í útvíkkun um hádegi.. Þetta tók samt sinn tíma og vaktaskipti urðu og biðum við öll spennt eftir því að nýja ljósmóðirin myndi taka stöðuna á útvíkkuninni. Klukkan 18:00 vorum við orðin örlítið örvæntingarfull og þegar ljósmóðirin tilkynnir okkur að ég sé enn með 5 í útvíkkun var ég farin að hallast að því að þetta væri ekki að fara gerast á föstudeginum 12. ágúst sem var pínu svekkjandi því ég var búin að senda á afa hennar að hann yrði kríndur afi á afmælisdeginum sínum. Ég man að ég og mamma erum að grínast og segjum jújú hún ætlar að ná kvöldfréttum (þeas ófædda dóttir mín) og grunaði okkur ekki að hún myndi síðan koma í heiminn kl. 22:02 svo hún rétt náði þeim.

JÆJA AÐ FÆÐINGUNNI…

Fæðingin gekk samt ekki áfallalaust fyrir sig! Andrea Rafns lét sko bíða eftir sér en ég upplifði mjög erfiða fæðingu. Eftir að ég fékk dropp um að flýta fyrir útvíkkuninni þá fékk ég hita, hjartslátturinn á henni var farin að detta niður og þurfti því að gera frekari rannsóknir um hvort barnið væri nokkuð í hættu. Blóðprufur voru teknar af höfuðkúpunni á barninu sem var föst í grindinni með því að setja stóran hólk inn í mig til að komast að barninu og á einu augnabliki var fæðingarstofan full af allskonar sérfræðingum og læknum og upplifði ég mig algjörlega hjálparlausa og hræðslan helltist yfir mig.

Ég man ég var alltaf að hugsa um að ég þyrfti að vera sterk fyrir litlu stelpuna mína því ég þyrfti að sína henni að ég væri ekki hrædd en guð minn góður hvað ég var hrædd og mig langaði helst að garga úr hræðslu. Tárin streymdu niður og ég man að ég reyndi að fela gráturinn í hvert sinn sem ég andaði að mér glaðloftinu. Ég var svo hrædd því við fengum engin svör hvort hún væri lagi og áhyggjusvipurinn á lækninum var ekki að hjálpa til. Það eina sem ég man mjög vel eftir var að Þorbjörn var rosalega rólegur, hann var stanslaust að hugga mig og segja að þetta væri allt í lagi og það hjálpaði mér rosalga mikið. Mamma var meira að segja orðin stressuð og strunsaði hún um öll gólf með kaldan bakstur því ég var komin með svo háan hita.

Greyið Þorbjörn var svo miður sín að geta ekki gert neitt svo hann bauð mér vatnsglas á 5 mín fresti. Ég veit að ég var mjög stillt alla fæðinguna nema eitt skipti þegar ég fékk nóg af þessari vatnsglas spuringu og afþakkaði vatnið pent haha! Hvæsti örlítð á greyið sem var bara að reyna vara yndislegur og gera eitthvað.

Það kom síðan í ljós frekar seint í fæðingunni að hún var föst á hlið í grindinni og var búið að undirbúa mig fyrir bráðakeisara en það átti að gefa mér einn séns á að koma henni út með hjálp frá sogklukku og það yrði að gerast núna eða ég færi í keisara ASAP!! Ég ætlaði mér að fæða hana sjálf og lét ekki segja mér það tvisvar. Eftir að sogklukkan var loksins komin á eftir 4 misheppnaðar tilraunir til þess að festa hana á (ætla ekki að reyna lýsa með orðum hversu sársaukafullt það er) þá fékk ég loksins að rembast. Ég hinsvegar fann aldrei fyrir þessari blessaðri rembingsþörf eins og allir tala um. Ég fann bara fyrir MJÖG miklum þrýsting og var stanslaust að spurja út í þennan mikla þrýsting en fékk aldrei svör afhverju það var.

Ég beið bara eftir að ljósmóðirin sagði NÚNA og þá rembdist ég eins og þetta væri mitt síðasta og öskraði ábyggilega það hátt að ég hræddi alla á fæðingardeildinni. Eftir síðan 13 klst. fæðingu kom gullfallega dóttir mín í heiminn. 12 ágúst kl. 22:02 (rétt náði 10 fréttunum) og kom á afmælisdegi afa síns.

Ég var ekki með neinar væntingar um hvað myndi gerast þegar ég fengi hana í fangið því ég vildi ekki verða fyrir vonbrigðum ef ég myndi síðan ekki upplifa þessa tilfiningu sem flestir tala um “þessa skuldlausa ást og hamingju sem gusast yfir mann” en guð minn góður ég var eins og lítið barn sjálf, ég grét og grét af hamingju og svo hamingjusöm að hún var hraust og heilbrigð, heil 3728 grömm og 52 cm. Litla daman mín var loksins komin og svo ótrúlega falleg.

Það eina sem situr í mér eftir fæðinguna eða það eina sem ég “sakna” er það að hafa ekki fengið að upplifa að hafa hana í fanginu fyrstu klukkustundirnar. Hún var snögglega tekin á vöggudeild í eftirlit til að rannsaka hvort allt hafi verið í lagi útaf því að hjartslátturinn hennar var alltaf að detta niður á meðan fæðingunni stóð og var hún orðin rosalega þreytt eftir átökin. Það þurfti því að fylgjast með súrefnis mettuninni hennar (ef ég er að muna þetta rétt). Ég skipa Þorbirni að fara með og líta ekki augunum af henni, bara alls ekki!! Hún var síðan útskrifuð ca 3 klst. síðar með toppeinkun.

Ég er svo þakklát fyrir því að hafa haft mömmu með í fæðingunni því hún náði að róa bæði mig og Þorbjörn þegar á mestu stóð og það var svo gott að hafa hana hjá mér þegar Þorbjörn fór með dóttur okkar á vökudeild ég var þá ekki ein á meðan að ljósmóðirin var að útskrifa mig. Ég endaði síðan á því að þurfa þvaglegg því ég náði ekki að pissa sjálf eftir fæðinguna og fékk einnig gyllinæð og það útskýrir þennan mikla þrýsting sem ég var stanslaust að kvarta undan. Þessir hlutir eru víst mjög algengir en ég hafði ekki hugmynd um það. Það gerist síðan eftir fyrstu nóttina okkar á spítalanum að þvagleggurinn færist til og leið mér ömurlega fyrstu 3 dagana og átti erfitt með að sitja og liggja til að gefa. Ég setti ekki samhengi við verkina út frá þvagleggnum og þessa “almennu” verki eftir fæðingu og var ég mjög kvalin á 3 degi. Ég skildi ekki afhverju ég var enn með þennan mikla þrýsting og verk niður og þessi þvagleggur var að gera illt verra. Um leið og hann var fjarlægður þá fór mér að líða betur. Hann ýtti undir mikið af verkjunum sem ég upplifði eftir fæðinguna og þar sem þetta er fyrsta barn hafði ég ekki hugmynd um sársaukan sem kæmi eftir fæðingu. Ég hélt að þetta yrði bara búið þegar barnið væri komið.

Fæðingarsagan mín er ekki draumafæðing en þegar ég hugsa til baka þá var hún ekkert eins slæm og hún lítur út fyrir að vera. Þrátt fyrir það að hún var löng og það gekk mikið á þá upplifði ég mig í rosalega öruggum höndum. Allir sem komu að fæðingunni voru svo yndislega dásamlegir og hjálpsamir og ljósmóðirin mín var sú allra besta. Þetta var VIÐBJÓÐSLEGA vont (það vont að ég ætlaði að hætta við þegar barnið var komið hálfa leið út og ég skipaði þeim að setja hana aftur inn og sækja hana á annan hátt) þá er þetta algjörlega þess virði (klisjukennt ég veit en það er ástæða fyrir því að maður er fljótur að gleyma sársaukanum).

Allar fæðingasögur eru mismunandi (slæmar eða góðar) og að fæða barn er ekki sjálfgefið. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa fæðingu þar sem allt gekk vel að lokum þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem við upplifðum. Ég er samt fyrst og fremst þakklat fyrir að hafa fengið tækifæri á því að fæða barn yfir höfuð og þakklát að hafa eignast heilbrigt barn sem dafnar vel. Það eru ekki allir eins heppnir og við Þorbjörn og er ég þakklát fyrir það á hverju degi. Ég trúi því varla að það séu 7 mánuðir síðan ég fór í gegnum þetta ferli. 7 mánuðir síðan ég fékk hana í hendurnar. Mér finnst eins og Andrea Rafns hafi alltaf verið hjá okkur en þessir 7 mánuðir hafa liðið svo ótrúlega hratt! Ég er fyrst að skilja núna þegar fólk talar um hvað tíminn líður hratt.

Að lokum þá langar mig svo að hrósa starfsfólkinu á Landspítalanum fyrir frábær störf. Ég ber svo mikla virðingu fyrir ljósmæðrum og öllum þeim sem vinna í kringum fæðingar því án þeirra hefði fæðingin okkar ekki endað eins vel og hún gerði.

Og til allra mæðra þarna úti, þið eruð hetjur!

Fæ að deila með ykkur nokkrum mjög persónulegum myndum – mæli svo mikið með að fá einhvern til að mynda fyrir ykkur fæðinguna því þetta eru dýrmætustu myndir sem ég á. Mamma mín sem var viðstödd fæðinguna tók þessar fallegu myndir, hún er alls ekkert flink með myndavélina en það skipti engu máli.

Hér sést vel hvernig hauskúpan myndast þegar þau eru tekin með sogklukku. Þetta var samt lygilega fljótt að ganga til baka.

Þegar Þorbjörn klippti á naflastrenginn.
Mamma að skoða litlu ömmu stelpuna sína.
7 mánuðum síðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Eiginkonan komin með nóg: Hélt aftur framhjá og eignaðist barn – Sparkaði honum út í annað sinn

Eiginkonan komin með nóg: Hélt aftur framhjá og eignaðist barn – Sparkaði honum út í annað sinn
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

England: Frábær byrjun Arsenal – Everton fékk skell á heimavelli

England: Frábær byrjun Arsenal – Everton fékk skell á heimavelli
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Besta deildin: Óskar Hrafn tapaði fyrsta leiknum sem þjálfari KR

Besta deildin: Óskar Hrafn tapaði fyrsta leiknum sem þjálfari KR
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Óþekkt nafn að ganga í raðir Manchester City

Óþekkt nafn að ganga í raðir Manchester City
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Afhjúpar leyndarmálið um hvernig „evrópska erfðamengið“ varð til

Afhjúpar leyndarmálið um hvernig „evrópska erfðamengið“ varð til
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Atletico hótar að hætta við

Atletico hótar að hætta við
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Goðsögn Liverpool segist elska einn leikmann United – ,,Ofurstjarna í framtíðinni“

Goðsögn Liverpool segist elska einn leikmann United – ,,Ofurstjarna í framtíðinni“