Ugla Stefanía Jónsdóttir og Fox Fisher eru bæði kynsegin og hafa verið saman í rúmlega ár. Þau eru um þessar mundir að taka þátt í gerð heimildarmyndar sem fjallar um möguleikann fyrir kynsegin fólk að gifta sig án þess að þurfa að skrá sig sem konu eða karl. Gay Iceland greinir frá þessu.
Kynsegin fólk er fólk sem vill hvorki flokka sig sem eingöngu karl eða konu. Orðið er í raun regnhlífarhugtak yfir fólk sem skilgreinir kynvitund sína sem hvorugt, bæði eða fljótandi á milli.
Myndin er gerð í Bretlandi og ber titillinn „Owl and Fox can‘t get married.“ Hún er fjármögnuð á GoFundMe og getur hver sem er styrkt gerð myndarinnar. Hópur af konum vinnur að gerð myndarinnar, þær stunda nám í kvikmyndagerð í Southampton Solent University og er myndin lokaverkefnið þeirra. Tökur eru þegar byrjaðar og hafa þær fylgst með Uglu og Fox síðustu þrjár vikur.
Bæði Ugla og Fox eru kynsegin og vilja skapa umræðu um fordómana sem kynsegin fólk finnur fyrir þegar kemur að hjúskaparlögum.
Við höfum farið til yfirvalda að spyrja spurninga, tala við aðra kynsegin einstaklinga, foreldra okkar og í gær enduðum við með að mótmæla hjúskaparlögum með því að „giftast“ í Brighton,
segir Ugla við Gay Iceland. Hún bætir við að brúðkaupið hafi einungis verið táknrænt, en ekki bindandi. Tilgangur brúðkaupsins og heimildarmyndarinnar er að auka vitund um þessi málefni og benda á að kynsegin fólk hafi enga skilgreiningu á kyngervi sínu samkvæmt lögum. Maður verður að skrá sig sem annað hvort karl eða konu, það eru engir aðrir valmöguleikar í Bretlandi og á Íslandi.
Það eru nokkur lönd sem hafa gert það löglegt að skrá sig sem önnur kyn en karlkyn og kvenkyn og er Ugla bjartsýn að Ísland fylgi í fótspor þeirra landa í framtíðinni.
Lestu viðtalið við Uglu í heild sinni á Gay Iceland.