Emilía Björg Óskarsdóttir giftist manni drauma sinna, honum Pálma, sumarið 2007. Þau voru búin að vera saman í fjögur ár og vissu að þau ættu að vera saman að eilífu. Hún segir frá þessu í pistli á Króm.is. Emilía var alltaf búin að sjá fyrir sér að hún yrði ung brúður.
Svo er ég líka mjög skipulögð og því var þetta allt saman í „réttri“ röð,
segir Emilía og bætir við að það séu eflaust einhverjir ósammála um hver rétta röðin er en fyrir henni er röðin: að búa fyrst saman, svo gifta sig og svo koma börnin.
Þegar Emilía og Pálmi tilkynntu áætlanir um hjónaband fengu þau athugasemdir varðandi aldur þeirra, eins og: „En þið eruð svo ung,“ eða „Ha? Gifta ykkur… en þið eigið allt lífið eftir.“ Þá var Emilía 22 ára og Pálmi 26 ára.
Persónulega hafði ég lítinn sem engan skilning á þessum athugasemdum því fyrir mér er mun stærra skref að eignast barn með einhverjum heldur en hjónaband – en það virðist „sjálfsagðara“ að fólk eignist börn upp úr tvítugu… en hjónaband, Guð forði ykkur frá því. Það að vilja játa ást okkar fyrir Guði og mönnum var á engan hátt að fara að skerða okkar möguleika í lífinu, þvert á móti.
Fyrir Emilíu er hjónaband ákveðin skuldbinding. „Skuldbinding um að ég sé búin að finna þann einstakling sem ég vil vera með að eilífu, þann sem ég vil eignast börn með, þann sem ég vil hlægja með þegar lífið leikur við mig og gráta með þegar lífið er erfitt.“
Emilía segir að aldurinn í þessu tilfelli skipti engu máli. Þau vissu hvað þau vildu og þau vildu gifta sig. Þann 14.júlí 2007 gengu þau í það heilaga og fögnuðu með fjölskyldu og vinum.
Emilía og Pálmi kynntust þegar hún var 18 ára gömul og urðu mjög skotin strax. Nú eru liðin 14 ár og segist Emilía ekki geta hugsað sér lífið án hans.
Hann stendur alltaf við bakið á mér sama hvað, er minn allra besti vinur og er alltaf til staðar. Hann er besti pabbi sem dætur mínar og stjúpdóttir gætu átt.
Í sumar fagna þau 10 ára brúðkaupsafmæli og óskar Bleikt þeim innilega með Tinbrúðkaupið!
Hægt er að fylgjast með Emilíu á Snapchat: emiliabj