Mæðgurnar Sólveig og Hildur hafa brennandi áhuga á grænmeti og matargerð, umhverfisvernd og lífrænni matjurtarækt. Þær halda úti bloggsíðunni maedgurnar.is þar sem þær deila ljúffengum uppskriftum og fékk Bleikt leyfi að birta færslu frá þeim þar sem farið er yfir uppskrift að djúsí samloku með heimagerðu spicy mayo.
Suma daga langar mann bara í almennilega djúsí samloku. Með mayonesi og öllum græjum. Svona innblásna af hinni alræmdu BLT-samloku (sem við mæðgur höfum reyndar aldrei smakkað). En þar sem við erum grænkerar miklir gerum við að sjálfsögðu okkar eigin útgáfu… og B-ið í beikon verður að F-i í feikon. Við vitum vel að við förum ekki alltaf hefðbundnu leiðina að hlutunum, og kannski rúlla einhverjir augunum núna, en það verður bara að hafa það. Upphaflega ætluðum við að skíra hana vegan BLT samloku, í stíl við innblásturinn… en þegar upp var staðið átti samlokan okkar kannski ekki margt sameiginlegt með beikonsamloku. En vá hvað hún var góð!
Við bjuggum til kókosflögu „feikon“ sem á að koma í staðinn fyrir beikon. Við höfum reyndar aldrei smakkað beikon, okkur grunar að góðir spæjarar finni kannski mögulega einhvern örsmáan mun á feikoni og beikoni… en feikon er að minnsta kosti rosalega bragðgott. (Við gerum stóran skammt til að eiga seinna á borgara og í salöt).
Svo er alveg ótrúlega auðvelt að búa til heimalagað vegan mayones. Ef þið hafið aldrei prófað, þá eruð þið heppin, því þetta kemur skemmtilega á óvart. Soðið af kjúklinabaunum (aquafaba) er orðið mjög vinsælt í allskyns matargerð í staðinn fyrir egg, við elskum að nýta þetta hráefni sem annars færi beint í vaskinn.
Það eina sem þarf að gera er að skella öllu nema olíunni í blandara og þeyta þar til freyðir. Svo er olíunni hellt hægt og rólega út í á meðan blandarinn er í gangi og allt í einu er komið mayo!
Við kunnum virkilega vel að meta bragðið af kaldpressaðri ólífuolíu og þess vegna völdum við að nota hana í mayo-ið okkar. En ólífuolíubragðið verður vel ríkjandi svo mörgum finnst betra að nota hlutlausari olíu. Ef þið eruð einlægir aðdáendur ólífuolíunnar mælum við með að prófa hana, því hún gerir mayo-ið vissulega afbragðs hollt. En það verður bragðmikið og ef þið viljið hefðbundnara mayo bragð er hlutlausari olía málið.
Skemmtileg innihaldsefni í mayones
Okkur finnst gott að eiga svona mayo til í ísskápnum, við gerum reglulega nýjan skammt. Ristuðu kókosflögurnar (feikonið) geymast líka vel, svo við eigum þær oft til líka. Og þá er okkur ekkert að vanbúnaði, við skellum í djúsí súrdeigs samloku.
2 súrdeigsbrauðsneiðar
2 salatblöð
smá spínat
2 sneiðar af bufftómat
½ avocado í sneiðum
4-5 laukhringir
4-5 brokkolí “blóm”, steikt á grillpönnu
1-2 msk kókosflögu “feikon”
4-5 msk spicy mayo
3 msk soð af niðursoðnum kjúklingabaunum (aquafaba)
1 msk sítrónusafi
1 msk eplaedik
1 tsk hlynsíróp eða önnur sæta
¾ tsk sjávarsalt
¼ tsk möluð sinnepsfræ (fást í kryddhillum stórmarkaðanna – má sleppa)
1 msk chilimauk eða harissamauk (má sleppa ef vill)
190 – 230 ml góð kaldpressuð olía – (bragðlítil ef þið viljið hlutlaust bragð – við notuðum bragðmikla jómfrúarólífuolíu)
1 dl kókosflögur
1 msk hlynsíróp
½ tsk chipotle duft – eða reykt papirka
½ tsk sjávarsalt