fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Hrefna Líf – „Ég vil ekki hafa barnið mitt á brjósti“

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 15. mars 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jæja Hrefna Líf! Hvar endar þetta. Fyrst skrifar þú pistil um að þú viljir ekki barnið þitt, því næst um að þú hafir orðið fyrir vonbrigðum þegar stelpan þín var í raun strákur og svo núna toppar þú þig endanlega með að „vilja” ekki gefa barninu þínu brjóst eins og allir eiga nú að gera!!! Eða er það ekki annars það sem að þú varst að hugsa?

Ég hef lesið nokkur blogg og pistla um brjósta– og pelagjafir. Þær frásagnir eiga það oft sameiginlegt að mæður hafi eftir besta megni reynt að hafa barn sitt á brjósti en dæmið hafi ekki gengið upp. Of margir standa í þeirri trú að nýbökuð móðir mjólki á við stærsta mjólkurbúið í Flóanum og eru mæður ekki nógu upplýstar um hvað mjólkurmyndun er mismunandi á milli kvenna. Margar ljósmæður eru ekki hlynntar „uppgjöf”. Þær telja nýbökuðum hormónafullum mæðrum trú um að það eina rétta í stöðunni sé að hafa barnið á brjósti sama hvað. ,„Hafðu barnið meira á brjósti”, „Pumpaðu þig á milli gjafa til að auka framleiðsluna”, eru setningar sem ég hef lesið á mömmugrúppum, kemur frá þeirra ljósmæðrum meðal annars.

Margar mæður upplifa brjóstagjöf sem fallegasta tíma lífs síns. I call bullshit! Jú, ok ok ein og ein þarna úti er alveg að fíla sig í botn. Með æluna á einni öxlinni og brjóstamjólk út um allan bol. Sem er frábært og hlakka ég til að lesa þær frásagnir. En ég er ekki komin til að skrifa um þær mæður!

En fyrir restina getur þetta reynst erfiður tími. Mikið stress og vonbrigði kemur yfir mæður og finnst þeim þær verri mæður fyrir það eitt að geta ekki framleitt mjólk fyrir barnið sitt. Leiðir það til depurðar og jafnvel þunglyndis. Sem getur leitt til þess að þær missi niður mjólkina. Andlega heilsan spilar nefnilega mikið inn í. Ástæðurnar eru jafn misjafnar og þær eru margar. En mín saga er örlítið öðruvisi.

Ég tók meðvitaða ákvörðun þegar ég var gengin 6 mánuði á leið að ég ætlaði ekki að gefa barninu mínu brjóst og sagði það hverjum sem að spurði. Nær enginn þeirra sem að spurði mig krafðist útskýringar á því eða hvort ég væri með gilda ástæðu. Heldur fékk ég frekar að heyra að móðurmjólkin væri nú það besta fyrir barnið, með öllum nauðsynlegum mótefnum og næringarefnum sem að ungbarn þyrfti. Nú eða hvað kostnaðurinn við að eiga pelabarn væri hár miðað við að vippa út túttunni.

Fólk var sannfært um að ég væri að mikla þetta fyrir mér og margir töldu að ég myndi breyta um skoðun um leið og ég fengi barnið í hendurnar.
En svo var aldeilis ekki. Ég sagði ljósmóður minni frá þessu sem tók heldur ekki vel í þetta. Svo mikið tók hún þetta nærri sér að mátt hefði halda að um hennar eigin barnabarn væri að ræða og yfir mig fékk ég alla helvítis rulluna. En ég stóð staðföst á mínu!

Nú geri ég ráð fyrir að ég sé búin að stuða nokkra lesendur… Veistu það gleður mig alveg örlítið! Ég nefnilega elska allt sem er tabú.
Margir hlutir eru tabú, einfaldlega vegna þess að fólk veit ekki alla söguna. Það ákveður fyrirfram að eitthvað sé ekki rétt og/eða asnalegt. En ef þú ert í þeim minnihlutahópi (ég varð að koma þessu orði inn, þar sem það er það vinsælasta þessa dagana). Þá ert þú ein af þeim sem að bíður eftir minni útskýringu.

Árið 2007 var ég greind með geðhvörf 2, kvíðaröskun og slæmt þunglyndi og allt það sem að því fylgir. Í 10 ár hef ég reynt að lifa með því og hefur það vægast sagt gengið brösulega. Ég hef trekk í trekk fallið úr námi og mistekist í því sem að ég hef tekið mér fyrir hendur. Einfaldlega þar sem að ég hef aldrei sett mér raunhæf markmið og alltaf tekið allt á hörkunni. En hvað kemur það brjóstagjöf við kannt þú að spyrja þig.

Jú þeir sem eru með geðhvörf 2 eru í 50-70% meiri hættu að fá svæsið fæðingarþunglyndi í kjölfar fæðingar.

Þannig að ég tók þann pól í hæðina að ég skyldi eftir fremsta megni reyna að komast hjá fæðingarþunglyndi. Ég talaði við minn lækni í upphafi meðgöngunnar og í samráði við hann tókum við út þau lyf sem ekki mætti taka á meðgöngu. Mátti ég svo byrja að taka þessi lyf aftur eftir að barnið væri fætt svo lengi sem að barnið væri ekki á brjósti. Þar sem að þau lyf skila sér út í brjóstamjólkina. Ég tók því meðvitaða ákvörðun um að setja sjálfa mig í fyrsta sæti. Svo að þegar barnið kæmi í heiminn gæti ég sinnt því eins vel og heilsa mín biði upp á. Sem hefur svo sannarlega skilað sér. Enda gengur lífið hjá barni og móður eftir óskum. Ég get deilt ábyrgðinni með manninum mínum og skiptumst við á að vakna með litla strákinn… NEI OK, þarna er ég að plata. Hann vaknar undantekningarlaust alltaf með drenginn og leyfir mér að sofa. Með góðum svefni, næ ég að halda minni geðheilsu í góðu standi. Ég er í besta jafnvæginu þegar ég fæ minn svefn og næ að gera hlutina vel. Restina sjá lyfin mín um.

En ég er á mínu fyrsta ári í dýralækningum í Valencia á Spáni og þarf að vakna til að mæta í skólann, þrátt fyrir að marga morgna sofi ég með þeim lengur og njóti þess að vera í mömmuorlofi með þeim, og er þá bara duglegri að læra sjálf heima. Ég flutti til Spánar gengin 20 vikur á leið. Sem að mörgum þykir klikkun. Enda er ég ekki vön að fara auðveldustu leiðina í lífinu. Sem jafnframt hefur orðið mér að falli á mínum verstu þrjósku tímum. En ég er bara svo ánægð með sjálfa mig að hafa ekki sett mitt nám og drauma á bið. Lykillinn að þessu hjá mér er að sjálfsögðu hversu mikla ábyrgð maðurinn minn tekur, enda styður hann mig í einu og öllu. Nú er skólaárið örlítið meira en hálfnað og hefur gengið brösulega á köflum. Enda tók meðgangan mikið á og það er meira en að segja það að vera með svona lítið kríli í námi. Ég setti mér það markmið í byrjun skólaárs að ég myndi bara gera mitt besta. Ég þyrfti ekki að ná öllum áföngum. Heldur sinna þessu jafnt og þétt og spyrja að leikslokum.

Þess vegna langar mig að hvetja aðrar konur í svipuðum sporum að ræða þetta við sinn lækni, ljómóður, maka eða gera það upp við sjálfa sig hvað sé best í stöðunni. Mér finnst brjóstamafían oft með of háa rödd. Það er vissulega best fyrir barnið að fá móður mjólkina. En það er enn betra fyrir móður og barn að öllum líði vel og nái að njóta stutta tímans sem þessir fyrstu mánuðir eru. Hvort sem að þú gefur barninu þurrmjólk eða ákveður að pumpa þig ef framleiðslan býður upp á það. Þá getur t.d. makinn (ef hann er til staðar) gefið pelann og þú fengið að sofa með góðri samvisku.

Hamingjusöm mamma er góð mamma og góð mamma er sú mamma sem er að gera sitt besta. Mundu það!!

Jökull Dreki 9 vikna (já barnið mitt heitir Dreki, bara svona til að toppa þetta allt!) Er einstaklega hamingjusamt og vært barn sem á glaða foreldra sem að sjá ekki eftir sinni ákvörðun.

Fyrir áhugasama erum við með mjög vinsælt snapchat þar sem ég deili með lífinu í Valencia -> Mömmulífinu, dýralæknaskólalífinu og fabjúlösslífinu!

Snapchat&Instagram: hrefnalif

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.