Það vakti athygli okkar fyrir helgina að fjölmiðlamaðurinn og sjálfsræktargúrúinn Sölvi Tryggvason birti mynd af sér og þremur öðrum reffilegum herramönnum fáklæddum uppi á Esju. Sölvi kallar nú ekki allt ömmu sína, og það gera vinir hans Helgi Jean Claessen, Sölvi Avo Pétursson og Vilhjálmur Andri Einarsson ekki heldur – en þeir eru hinir garparnir á myndinni.
Við ákváðum að heyra í Sölva og fá að heyra hverju þessi óviðeigandi klæðnaður að vetri, á fjöllum, sætti.
„Við höfum aðeins verið að leika okkur að kuldanum, með því að fara í sjóinn, köldu pottana og fleira. Ég hitti Ísmanninn, Wim Hof, í Hollandi 2015 og byrjaði að fikta við þetta þá. Einn af okkur fór svo á námskeið til hans,“
segir Sölvi í samtali við Bleikt.
„Kuldinn styrkir mann og ég er fyrst og fremst að þessu vegna þess hve frábær áhrifin eru á líðanina
Það var örlítið kalt, en annars var það meira vandamál að ég gleymdi almennilegum skóm og fór því upp á strigaskóm.“
Sölvi segir að nauðsynlegt sé að vinna kuldaþolið upp hægt og rólega.
„Þannig að þetta er glæfraskapur ef maður hefur ekki prófað neitt þessu líkt áður, en ef út í það er farið finnst mér mun meiri glæfraskapur að sitja hokinn átta tíma á dag fyrir framan tölvuskjá og éta ruslfæði… Við þolum miklu meira en við höldum!“