Þórdís Elva var í of stuttu pilsi, hún brosti of mikið og var drukkin kvöldið sem henni var nauðgað. Hún tók sökina á sig, vegna þess að hún var einmitt í of stuttu pilsi, hafði brosað breitt og var drukkin – henni hafði verið kennt að þannig stúlkum væri nauðgað, svo skömmin hlaut að vera hennar.
Þetta gerðist 1996 og nauðgari Þórdísar, sem þá var 16 ára, var kærastinn hennar Tom Stranger, 19 ára skiptinemi frá Ástralíu og fyrsta ástin hennar.
Tom og Þórdís segja frá atvikinu í mögnuðum Ted-fyrirlestri sem kom út í dag. Þau hafa skrifað saman bókina Handan fyrirgefningar, sem kemur út hjá Forlaginu þann 16. mars.
Í Ted-fyrirlestrinum koma Þórdís og Tom fram saman í fyrsta sinn, nauðgari og þolandi – en að baki liggja margra ára samskipti og ferli sem leiddi til fyrirgefningar og úrvinnslu þeirra beggja.
Þórdís segist hafa skrifað bókina einmitt vegna þess að henni er það kleift. „Ég var ekki grýtt, hýdd eða fangelsuð fyrir að hafa verið nauðgað,“ segir hún. „Ég var ekki neydd í hjónaband með gerandanum. Ég var ekki myrt til að endurheimta „heiður fjölskyldunnar“. Á vissan hátt má segja að stærsta áfall lífs míns sé jafnframt til marks um hversu mikilla forréttinda ég nýt, því ég get tjáð mig um það án þess að stofna öryggi mínu í hættu. En forréttindum fylgir ábyrgð og mér finnst ég skyldug til að beita rödd minni þegar svo margir brotaþolar um allan heim geta það ekki. En það er ekki nóg að brotaþolar tjái sig. Gerendur þurfa líka að rjúfa þögnina og axla ábyrgð.“
Tom tekur í sama streng: „Áframhaldandi þögn leiðir ekki til breytinga. Ég hef verið hluti af þessu vandamáli og nú langar mig að leggja mitt af mörkum til lausnarinnar. Tekið skal fram að ég er einn einstaklingur og alls ekki fulltrúi stærri hóps eða karlmanna í heild. Þetta er eingöngu mín saga, saga um hvítan millistéttarmann sem nauðgaði sextán ára kærustunni sinni þegar hann var sjálfur átján ára, og vill nú taka ábyrgð á sársaukanum sem hann hefur valdið í von um að það opni uppbyggilega umræðu.“
Fyrirlesturinn má horfa á hér: