Þið vissuð kannski ekki af þessu – en ástralska söngkonan Kylie Minogue er búin að eiga í deilum við nöfnu sína, bandarísku raunveruleikastjörnuna Kylie Jenner. Deilan snerist um kröfu fröken Jenner um að fá einkaleyfi á því sem þær eiga sameiginlegt – fornafninu Kylie.
Á mánudaginn varð ljóst að Kylie Minogue vann slaginn. Það er þessi káta til vinstri hér fyrir ofan!
Einkaleyfastofan bandaríska vísaði beiðni Kylie Jenner frá – en fregnir herma að hún undirbúi nú áfrýjun þess efnis að hún fái að nota vöruheitið Kylie fyrir tísku- og snyrtivörulínur sínar, sem hafa notið talsverðra vinsælda.
Það var árið 2014 sem Kylie Jenner (19) sótti um einkaleyfi á vörumerkinu Kylie. Í febrúar í fyrra var þessu mótmælt fyrir hönd Kylie Minogue (48) af ástralska umboðsfyrirtækinu KDB.
Samkvæmt réttarskjölum sem New York Post komst yfir, voru rök KDB meðal annars byggð á að vörumerki Kylie Jenner gæti ruglað aðdáendur Kylie Minogue og haft skemmandi áhrif á hennar vörumerki.
Einnig var bent á að ástralaska poppstjarnan á vörumerkið Kylie í skemmtana- og tónlistarupptökubransanum – hún á vörumerkin „Kylie Minogue Darling,” „Lucky – the Kylie Minogue musical” og „Kylie Minogue,” og að auki hefur hún átt vefsíðuna Kylie.com síðan 1996.
Í skjölum KDB er rætt um sýniþörf Kylie Jenner á samfélagsmiðlum og umdeildar færslur hennar sem hafa uppskorið gagnrýni frá baráttusamtökum fatlaðra, og samfélagi svartra.
Einnig er talað um Kylie Jenner sem aukapersónu í sjónvarpsþættinum Keeping up with the Kardashians þar sem hún birtist í stoðhlutverki við Kardashian-systurnar Kim, Khloé og Kourtney.