Flest þekkjum við söguna um Rauðhettu og úlfinn. Rauðhetta litla fær bakkelsi í körfu frá móður sinni og á að ganga í gegnum skóginn til ömmu sinnar sem er veik og þarf mat. Móðir hennar tekur það skýrt fram að hún eigi að ganga á stígnum í skóginum og megi alls ekki fara út fyrir hann. Á leið sinni sér Rauðhetta falleg blóm fyrir utan stíginn og telur sér trú um að ekkert gerist þó hún týni nokkur blóm handa ömmu sinni líka. En þá hittir hún vondan úlf sem ákveður að plata Rauðhettu og fer heim til ömmu hennar með þá áætlun að borða þær báðar. Sem betur fer er skógarhöggsmaður sem kemur þeim til bjargar í lokin og allt endar vel.
Jæja.. Setjum þetta yfir í nútímabúning;
Rauðhetta litla býr í miðbænum með mömmu sinni sem vinnur tvær vinnur, drekkur mikið kaffi og laumu reykir. Rauðhetta er að byrja í framhaldsskóla næsta haust og er að deita strák sem heitir Atli, hann er 17 ára. Rauðhetta á tvíburabræður sem eru þriggja ára og hún þarf stundum að passa þá um helgar svo mamma hennar geti unnið. Hverja helgi fer Rauðhetta í Kringluna, bíó eða skemmtir sér með vinum sínum. Hún kemur alltaf seint heim þar sem mamma hennar er svo þreytt að hún er hvort eð er alltaf sofnuð í sófanum fyrir miðnætti. Rauðhetta á síma og fartölvu, hún er með facebook síðu og á fullt af vinum sem hún spjallar við allan liðlangan daginn í gegnum símann.
Amma hennar Rauðhettu býr á elliheimilinu Grund, það er ekkert langt frá miðbænum en Rauðhetta nennir samt ekki að labba þangað og að taka strætó er ótrúlegt vesen. Amma hennar er lasin og móðir Rauðhettu biður hana um að fara í heimsókn til hennar eftir skóla með poka af myndaalbúmum sem amma hennar bað um að fá að skoða. Það er föstudagur.
Rauðhetta setur pokann á hurðarhúninn svo hún gleymi honum ekki. Þessa helgi eru tvíburarnir á pabbahelgi svo Rauðhetta þarf ekkert að passa. Hún fer upp í herbergi, í tölvuna og horfir á nokkra þætti og spjallar við vini sína. Þau ákveða að fara í bíó og Rauðhetta skellir sér í útiföt og ætlar að hoppa út þegar hún sér pokann. Hún opnar hurðina og fer út og passar að pokinn detti ekki af húninum. Rauðhetta fer í bíó og skemmtir sér vel, hugsar með sér að hún geti farið með pokann til ömmu sinnar á morgun.
Laugardagur rennur upp og Rauðhetta nennir ekki á fætur fyrr en eftir hádegi. Hún „scrollar“ í gegnum facebookið og dottar í sófanum. Atli hefur samband við Rauðhettu og býður henni í partý um kvöldið. Rauðhetta er mjög spennt og fer strax að gera sig klára.
Skömmu síðar kemur Atli að sækja Rauðhettu og enn og aftur sér Rauðhetta pokann á hurðarhúninum. „Ahh“ hugsar hún með sér „Ég fer með pokann til ömmu strax í fyrramállið“.
Rauðhetta skemmtir sér vel í partýinu og kemur seint heim. Hún opnar varlega hurðina og þá dettur pokinn í gólfið. Rauðhetta sparkar honum til hliðar og fer upp í herbergi að sofa.
Klukkan er tvö, sunnudagur. Mamma Rauðhettu bankar á herbergið hjá henni og kemur inn. Rauðhetta spyr hana afhverju hún sé ekki í vinnunni eins og vanalega.
„Rauðhetta mín, ég var hjá ömmu þinni í nótt. Hún lést í morgun.“
Boðskapur sögunnar?
Gefum okkur tíma fyrir það sem skiptir máli, sinnum þeim sem sinntu okkur. Úlfurinn þarf ekkert alltaf að vera loðin með beittar tennur heldur getur hann birst okkur í mörgum myndum.