Sundfatatímarit Sports Illustrated vekur alltaf athygli en 2017 tölublaðið á að vera það fjölbreyttasta sem gefið hefur verið út til þessa. Tímaritið hefur gefið út að aldrei hafi fyrirsæturnar verið í jafn fjölbreyttum fatastærðum og á jafn breiðu aldursbili. Undirliggjandi þemað virðist vera „að fagna eigin líkama“ en ritstjóri tímaritsins sagði á Instagram: „Við erum að fagna fegurð og sjálfstrausti.“ Í
tilefni að útgáfu tímaritsins ákvað hún sjálf að fagna eigin líkama og koma fram á sundfötum í Instagram myndbandi. Hún hefur ritstýrt sundfatatímariti í mörg ár en sjálfri aldrei liðið vel í bikiní. Hvetur hún konur til þess að elska eigin líkama eins og hann er núna og birta myndir af sér á sundfötum á samfélagsmiðlum. Hún hefur fengið mikið hrós fyrir að sýna fordæmi og fagna sínum líkama.
Á forsíðunni í fyrra var fyrirsætan Ashley Graham og fékk það ótrúlega jákvæða athygli. Í 2017 tölublaðinu eru meðal annars fyrirsætan Hunter McGrady sem birti þessa mynd af sér úr blaðinu og skrifaði við hana að fegurð hefur enga ákveðna fatastærð.
Í blaðinu er einnig tennisstjarnan Serena Williams.
Á forsíðunni í ár er Kate Upton og í tilefni að því að þetta er í þriðja skipti sem hún prýðir forsíðu blaðsins var ákveðið að gera þrjár mismunandi forsíður. Fyrirsögn blaðsins var „Kate the great“ en margir hafa tjáð sig á Twitter um að það sé skrítið að hún sé ekki í heilu bikiní á neinni forsíðunni. Það breytir því samt ekki að fjölbreytnin í blaðinu er stórt skref í rétta átt.