Við rákumst á ótrúlega skemmtilegt lestrarbingó á netinu í dag. Bingóið snýst um að prófa að hrista aðeins upp í lestrinum hjá sér og prófa að lesa við aðrar aðstæður. Nú er lestrarátakið Allir lesa að klárast og því tilvalið að nota þetta á lokasprettinum. „Þetta er tæki sem hefur verið notað stundum í grunnskólum til að lífga upp á lestur, gera smá leik í kringum lesturinn,“ segir Bergrún Íris verkefnastýra Allir lesa en hún gerði þetta skemmtilega bingó. Bergrún Íris segir að það sé tilvalið að prenta dagatalið út og hengja á ísskápinn. Ef margir eru á heimilinu er hægt að prenta út eitt eintak fyrir hvern fjölskyldumeðlim og merkja með nafni, svo er hægt að keppa um það hver fær fyrstur bingó!
Svo er líka í gangi skemmtileg keppni á samfélagsmiðlum. Merktu þína lestrarmynd með #allirlesa en frumlegasta myndin fær verðlaun.