Sjómaðurinn og þriggja barna faðirinn, Mikael Tamar Elíasson, hefur vakið verðskuldaða athygli á samfélagsmiðlum fyrir ljóð sín. Nýjasta ljóð hans fjallar um Klevis Sula, unga manninn frá Albaníu sem lét lífið eftir hnífstunguárás á Austurvelli um síðustu helgi.
Harmleikur seilast í hugann á mér
í Reykjavík lést ungur maður
skiptir það máli hvaðan hann er
eða er Ísland auðmjúkur staður
Fólkið hans berst nú við alla þá sorg
sem hamrar sem sleggja á steini
„Drengurinn lést í okkar fallegu borg
þar sem dauðinn lá lævís í leyni“
Með hjarta sem hafði drauma og þrár
og ást til að gefa okkur öllum
nú liggur hann látinn kaldur og blár
með hljóðvana hátíðarbjöllum
Þegar að sorgin rennur í hlað
við kveikjum á kærleik og hlýju
Hann ferðast nú á sinn síðasta stað
þó fæðst hafi í Albaníu
Við berum í brjósti hjarta sem slær
hvaðan svo sem að við erum
reynum að færa okkur örlítið nær
að því sem við fallega gerum