Naglinn hefur aldrei viljað vera með bert milli laga í ræktinni.
Finnst óþægilegt að vera í bikiní.
Farið langt útfyrir þægindamörk að birta myndir þar sem sést í naflann.
Ekki-nóg nefndin kemur saman við slík tilefni.
Frikki fullkomnun. Nonni niðurrif.
Siggi samanburður.
Saman hrópa þeir í einum kór inni í núðlunni.
Ojjj.. ætlarðu að opinbera þessa ömurð.
Mallinn á þér er næpuhvítur.
Með dellur í kringum naflann.
Enginn sixpakk.
Þú munt fá hæðnisbréf frá Hagstofunni.
Tjörguð og fiðruð á torgum.
Komplexarnir úr æsku hafa áhrif á álit þeirra.
Frá því fjölskyldumeðlimur kleip í magann á 12 ára barni og sagði „Á ekki að fara að grenna sig?“
Á þeim tímapunkti varð maginn aldrei nóg.
Ekki nógu mjór. Ekki nógu sterkur. Ekki nógu skorinn. Naflinn ekki nógu útstæður.
Aldrei nógu… fylltu í eyðurnar.
Alltaf of eitthvað…..
Of feitur. Of mjúkur. Of ljótur.
Naflinn of niðurdreginn.
Því sjálfsmyndin mótast í æsku. Hvað er sagt við okkur á krítískum mótunarárum markar djúp spor sem erfitt er að moka yfir.
En á einhverjum tímapunkti þá áttar maður sig á að þessi saga í hausnum að þú eigir að dæma og gagnrýna eigin skrokk er ekki meðfædd. Hún er erfð frá samfélaginu.
Þú ÁTT að hatast út í dellur á malla og appó á lærum.
Þú ÁTT að grenja yfir slitförum og rassastærð í brók.
En eru það virkilega okkar eigin tilfinningar við virkilega svona súr út í húðlög á skrokknum?
Eða erum við skilyrt af auglýsingum um krem og pillur og duft og dítox?
Erum við sósuð í instagrammi af fílteruðum fótósjoppuðum uppstilltum skrokkum sem birta firrta mynd af veruleikanum?
Við getum breytt hvernig þessi orðræða er í hausnum á okkur.
Við getum vonandi breytt hvernig hún birtist í ræðu og riti.
Þegar við gagnrýnum samfélagslega pressu á kvenkyns (og karlkyns) og þorum að deila okkar sögum þá holar dropinn steininn smátt og smátt.
Hæ, ég heiti Ragga og ég er með fellingar á maganum.
Þó ég sé ræktarmelur.
Já og ég er ekki með snefil af farða á þessari mynd.
Naglinn hefur aldrei viljað vera með bert milli laga í ræktinni.Finnst óþægilegt að vera í bikiní.Farið langt útfyrir…
Posted by Ragga Nagli on 8. desember 2017