Útgáfurnar eru á tvöföldum vínyl með áður óútgefnum tónleikaupptökum sem aukalög. Þeir sem styrktu útgáfuna í gegnum Karolinafund söfnun sveitarinnar geta einnig sótt sín eintök á staðinn og fengið áritanir í leiðinni.
Plöturnar eru þríleikur sem hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012. Þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins.
Vélráð, sem kom út 2014, fjallaði um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli.
Eldraunir kom svo út í ár og er um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.
Dimma hélt útgáfutónleika Eldrauna 10. júní og má sjá umfjöllun um tónleikana hér.
Vínyllinn kom til landsins í vikunni og vó sendingin 900 kg svo það er Dimmur og góður desember framundan hjá landsmönnum.
Á YouTube má sjá myndbönd Dimmu og myndbönd um gerð Eldrauna.