Endurvinnsluátakið „Gefum jólaljósum lengra líf – endurvinnum álið í sprittkertunum“ hófst 6. desember síðastliðinn og stendur til 31. janúar 2018. Tilgangurinn með átakinu er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.
Skila má sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land eða setja þau bara laus í grænu tunnurnar.
Ál hefur þá sérstöðu að það má nýta aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Einungis þarf um 5% af orkunni sem fór upphaflega í að framleiða álið til að endurvinna það. Það þýðir að mikil verðmæti leysast úr læðingi við endurvinnslu álsins og færir það stoðir undir rekstur endurvinnslufyrirtækja víða um Evrópu.
Þá dregur orkusparnaðurinn við endurvinnslu áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda verður almennt mest losun frá orkuvinnslunni við framleiðslu áls í heiminum.
Fylgjast má með átakinu á Facebooksíðu þess. Efnt verður til leiks á Instagram í samstarfi við Mbl. is, þar sem veitt verða verðlaun fyrir fallegustu sprittkertamyndina.