Jólin nálgast með öllu tilheyrandi og jólasveinarnir 13 verða bráðum reiðubúnir að koma til byggða með ýmislegt í pokum sínum fyrir að setja í alla þessa skó í gluggunum.
Ef einhverjir af jólasveinunum eru í tölvufæri upp í fjallshlíðum og lesa þennan greinarstúf þá langar mig að koma með einlæga bón til þeirra og það er að gæta jafnréttis og hófsemis í gjöfum sínum.
Börnin tala náið saman og bera sig saman við hvort annað í hvívetna. Látið ekki sessunauta í bekkjum skólastofa bera sig saman um nýju stóru og dýru gjöfina frá einhverjum ykkar á meðan hinn segir frá einhverju agnarsmáu. Sá samanburður er óþægilegur og væri best ef hann þyrfti ekki að koma til tals.
Það er að mínu mati algjör óþarfi hjá ykkur að gefa stóra gjöf í lítinn skó. Stærðin og verðmiðinn á ekki að skipta neinu máli þegar gefið er í skóinn.
Hið litla og ódýra getur líka svo sannarlega glatt.
Hafið þetta hugfast kæru jólasveinar og góða ferð til byggða.