„Mér finnst svo gaman í dag að það eru allir með dagatal,“ segir Sigga Dögg. „Þegar maður finnur ekki tíma til að ræða málin, af hverju er þá ekki fínt að nýta tímann núna fram að jólum til að ýta aðeins við manni. Þetta er tími fjölskyldunnar og ekkert mikilvægara en að halda henni saman.“
Þetta er þriðja árið í röð sem Sigga Dögg er með slíkt jóladagatal, í fyrra var hún í samstarfi við K100 og dagatalið birtist á Facebooksíðum beggja og árið þar á undan á eigin Facebooksíðu.
Sigga Dögg lenti í því óhappi að vera sett í tímabundið Facebookbann rétt áður en jóladagatalið byrjaði. Ástæðan? „Ég deildi mynd af mér á fyrirlestri og það sést í glæruna og á henni sást í krumpaða forhúð og þetta stríðir gegn reglum Facebook um nekt eða það hefur einhver tilkynnt mig. Alveg týpískt að vera sett í bann rétt áður en dagatalið byrjaði,“ segir Sigga Dögg og hlær.
Ný mynd mun koma inn daglega í jóladagatalinu. „Mig langaði bara að hafa þetta á léttu nótunum, ekki of kynlífstengt,“ segir Sigga Dögg. „Ég pósta bara inn mynd með svona skilaboðabólu, þetta er bara með húmór, ekki einhver kynlífstækni, heldur meira til að gefa fólki eitthvað til að tala um.“
„Samskiptahlutinn gleymist oft, það er einblínt svo á tæknina og þá er ég ekki bara að meina einhver hjálpartæki, í staðinn fyrir tungumálið og að kveikja á heilanum. Sambandið og rómantíkin má ekki gleymast og hvað við erum að gera. Við erum ekki að sýna hvað við kunnum, þetta er bara kósý stund saman.“
Fylgjast má með jóladagatali Siggu Daggar á Facebooksíðu hennar.