Lucy Trecasse fagnaði afmælinu sínu, 112 ára, ásamt vinum og vandamönnum, á dögunum á hjúkrunarheimilinu þar sem hún býr í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum Trecasse passaði upp á að einn af hennar uppáhaldshlutum væri á staðnum til að fagna áfanganum með: bjór.
Trecasse ver tíma sínum að mestu í að prjóna, sauma út eða spila bingó, en af og til opnar hún sér einn kaldan og deilir með vini. Hún hefur lengi verið aðdáandi bjórsins, fjölskylda hennar bruggaði meira að segja bjór og seldi á bannárunum og aðspurð hversu lengi hún hefur drukkið bjór, svarar Trecasse alsæl: „Allt mitt líf! 112 ár! Pabbi gaf mér smakk þegar ég var bara barn og mér líkaði það.“
Trecasse er fædd í Foxburg í Pennsylvaníu árið 1905 og á þeim tíma var meðallífaldur kvenna 50 ár. Fjölskylda hennar var ein af þeim fyrstu í bænum til að eignast útvarp og hlustuðu þau þá á fyrstu útvarpsstöðina KDKA, sem Trecasse hlustar á enn þann dag í dag, alla morgna.
Hún útskrifaðist hæst í sínum bekk og vann sem ritari hjá Standard Steel bílafyrirtækinu, hún giftist árið 1928, Joseph Treccase, lækni og hermanni sem þjónað hafði í Fyrri heimsstyrjölddinni. Þau voru gift í 52 ár, en Joseph lést árið 1980.
Trecasse heldur sér skarpri meðal annars með því að fara með stafrófið aftur á bak, sem hún gerir án þess að hika og aðspurð um leyndarmálið á bak við háan aldur hennar, svarar hún að bragði: „Ekki reykja! Ég hef aldrei reykt og á mínu heimili drukkum við mjólk.“