„Það eru alltaf 43 sögur í hverri bók, bæði á íslensku og þýddar yfir á vandaða íslensku,“ segir Ármann. Síðustu fimm bækur hefur Lisa Marie Mahmic þýtt yfir á ensku, en fyrri bækurnar þýddi Martin Regal, en hann lést fyrr á þessu ári. „Ég er ánægður með að kona tók við, það kemur svona feminískur blær á sögurnar og svo er hún flottur þýðandi,“ segir Ármann.
„Lisa er íslensk-frönsk, alin upp á Englandi í enskum skólum, flutti til Íslands fyrir tíu árum og kynntist og giftist manni frá Bosníu, þannig að hún er alþjóðleg,“ segir Ármann. „Ákaflega flott kona og flinkur þýðandi. Hún talar frönsku, ensku, íslensku og er að læra bosnísku.“
„Goddur sér um grafíska hönnun, en hann er einn af okkar flottustu grafísku hönnuðum, ég vel fínasta pappír frá Svíþjóð, bækurnar eru prentaðar í Slóveníu og svo sendar til Íslands. Svo vel ég alltaf listaverk eftir áhugaverðan samtímalistamann og núna er ég með verk eftir Sverri Ólafsson myndhöggvara af því ég er með sögu um hann í bókinni.“
Bækurnar fara ekki í sölu í bókabúðum, heldur er Ármann með lesendur sína í áskrift, auk þess sem panta má bækur frá honum í síma eða með tölvupósti. „Allt sem ég geri er öðruvísi og ég hef aldrei auglýst bækurnar mínar.“
„Ég byrja á bók 19 fljótlega eftir áramót,“ segir Ármann, en hann er á lokasprettinum með bók 18. „Ég þarf að byrja svona snemma til að halda utan um allt saman, en ég sé um sölu og dreifinu og allt sjálfur.“ Ármann er í toppformi andlega og líkamlega og er í líkamsrækt fimm daga í viku.
Ármann fór til Bandaríkjanna í haust, en Edward Peter Stringham prófessor í hagfræði og frumkvöðlastarfsemi og forseti the American Institute of Economic Research bauð honum erlendis.
„Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég hitti persónu sem líkist Great Gatsby í stíl og Andy Warhol í útliti. Hann bauð mér að koma og lesa þrjár Vinjettur sem tók 10 mínútur, en ég var þar í tíu daga,“ segir Ármann og hlær.