„Af öllu hjarta“ er verkefni sem Kringlan hleypti af stokkunum í fyrra en í því felst að einn dag á ári gefa verslanir og veitingastaðir hússins 5% af veltu dagsins til góðs málefnis. Söfnunin fór fram fimmtudaginn 21 september og var dagurinn í Kringlunni helgaður málefninu.
Samstillt átak verslunareigenda í einni stærstu verslunarmiðstöð landsins áorkar miklu til samfélagslegs málefnis af þessu tagi auk þess sem félagið fær ómetanlegt tækifæri til kynningar og fræðslu. Í ár söfnuðust 2.771.167 kr. og mun söfnunarfé skipta sköpum við upphaf rekstrar á nýju meðferðarheimili Pieta sem opnað verður 1.desember.
Viðstaddir athöfnina voru forsvarsmenn Pieta Ísland og Rekstrarfélags Kringlunnar.
Góðgerðardagur Kringlunnar er sem fyrr segir árlegur og og munu góðgerðasamtök geta sótt um útnefningu söfnunar með því að senda inn umsókn til Kringlunnar á kringlan.is.