Bréf til bjargar lífi er stærsti mannréttindaviðburður heims og fer fram samtímis í fjölmörgum löndum víða um heim. Allir geta tekið þátt og skrifað undir 10 áríðandi mál þar sem brotið hefur verið á mannréttindum einstaklinga og hópa sem sæta mannréttindabrotum og þrýsta um leið á stjórnvöld að láta af mannréttindabrotum.
Markmiðið er að safna eins mörgum undirskriftum og hægt er. Skrifaðu undir og gefðu vonarljós í líf þeirra sem mega þola mannréttindabrot. Skrifa má undir á vefsíðu Amnesty.
Í tengslum við herferðina mun einstök upplifun, Lýstu upp myrkrið, standa yfir í fimm daga, 1. – 5. desember frá kl. 17 – 22 við Hallgrímskirkju.
Lýstu upp myrkrið er líklega stærsta gagnvirka ljósainnsetning sem sett hefur verið upp á Íslandi. Gestir geta tekið þátt í ljósainnsetningunni með því að skrifa undir málin á spjaldtölvu og um leið lýst upp stórt kerti sem varpað er á Hallgrímskirkju. Saman geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að halda loganum lifandi auk þess sem undirskrift þeirra verður hluti af sjónarspilinu.
Komdu og upplifðu hvernig þú getur lýst upp myrkrið í lífi þeirra sem mega þola skelfilegt óréttlæti. Taktu þátt og haltu loganum í innsetningunni lifandi.