„Ég elska náttúruna og það eru fáir staðir í veröldinni sem eru með jafnóspillta náttúru og Ísland. Hann og nokkrir vinir hans héldu hingað til lands og ljóst er af myndum að þeir fóru sannkallaða ævintýraferð um landið. KC Deane, atvinnuskíðamaður og fjallahjólreiðakappi sá um að skipuleggja ferðina og með í för var ljósmyndari DV, Sigtryggur Ari Jóhannsson, sem tók allar myndir ferðarinnar.
„Mig langaði í ævintýri,“ segir Manganiello. „Ég hef aldrei séð neitt líkt Íslandi. Þú lest eitthvað í bókum sem barn og þú heldur að það sé hvergi til nema í huga þínum.“
Manganiello og vinir hans voru hér í viku og þrátt fyrir að hann lýsi ferðinni, eins og áður sagði, sem stórkostlegasta ævintýri lífs síns, setur hann eitt atriði efst á listann. „Þetta byrjaði þannig að við fundum Banksy undir brú rétt hjá svartri sandströnd fullri af ísklumpum sem sólargeislar spegluðust í.“ Síðan klæddi hann sig í galla fyrir 8 kílómetra kajaksiglingu um lón full af ísjökum. Hádegismatur á ströndinni, skoðun á íshelli, hikeferð yfir jökul og „besti fiskur sem ég hef á ævi minni borðað“ sá svo um að gera þann dag að þeim besta að sögn Manganiello.
En hann bætir við: „Grínlaust, hver einasti dagur var ævintýri á borð við þetta.“
Fjallaklifur á fjórða degi reyndist áskorun, þrátt fyrir að Manganiello sé í fantaformi. „Þetta var í góðum halla,“ segir hann. En íslenski lagalistinn, með lögum GusGus, Pantera og Björk, á meðal annarra, sá um að hvetja hann áfram. „Og útsýnið frá toppnum og á ferðinni niður voru þess virði.“
Joe Manganiello er nokkuð vanur því að vera fáklæddur í kvikmyndahlutverkum sínum, en ljóst er að það hefði ekki gengið upp í Íslandsferðinni, í byrjun nóvember….því miður.