MMAfréttir greindu fyrst frá. Björn Lúkas mætti Ástralanum Joseph Luciano í dag í undanúrslitum. Ástralinn byrjaði á að taka Björn Lúkas niður en okkar maður var ekki lengi að snúa stöðunni sér í vil og tók bakið á Luciano. Þar reyndi hann að finna opnanir til að klára bardagann en Luciano varðist vel.
Ástralanum tókst að standa upp en Björn kastaði honum niður skömmu síðar með fallegu júdó kasti. Aftur náði hann bakinu en í stað þess að fara í henginguna sótti hann í armlás. Björn náði að rétta alveg úr hönd Luciano og stöðvaði dómarinn bardagann. Luciano tappaði ekki út en hugsanlega hefur hann gefið dómaranum merki þess efnis að stöðva bardagann.
Árangur Björns Lúkasar er feikna góður, en þrjá bardaga hefur hann klárað með armlás og einn með tæknilegu rothöggi. Hann fær frí á morgun en úrslitin fara svo fram á laugardaginn.