Björn Lúkas keppir í millivigt en fyrsta umferð mótsins fór fram í gær. Björn mætti Spánverjanum Ian Kuchler í fyrstu umferð og lenti ekki í neinum teljandi vandræðum. Björn Lúkas er með mikla keppnisreynslu úr júdó, taekwondo og brasilísku jiu-jitsu og kom sú reynsla vel að notum í dag. Björn kastaði Spánverjanum niður, komst í yfirburðastöðu og kláraði með armlás eftir rúmar tvær mínútur af fyrstu lotu. MMAFréttir greindu fyrst frá.
Björn er þar af leiðandi kominn áfram í 16-manna úrslit en þau fara fram í dag. Þá mætir hann hinum írska Fionn Healy-Magwa. Írinn vann sinn bardaga í gær eftir klofna dómaraákvörðun og þurfti því að taka mun meira á því í búrinu í gær heldur en Björn. Healy-Magwa er 7-2 á áhugamannaferlinum í MMA en hann æfir hjá SBG í Dublin undir handleiðslu John Kavanagh.
Bardaginn í gær var þriðji MMA bardagi Björns á MMA ferlinum og hefur hann klárað þá alla í 1. lotu. Það er því ljóst að bardaginn í dag verður hörku bardagi.
Það er alþjóðlega MMA sambandið (IMMAF, International MMA Federation) sem stendur að mótinu en þetta er í fjórða sinn sem Heimsmeistaramót áhugamanna er haldið.
Ísland hefur þrívegis eignast Evrópumeistara áhugamanna í MMA. Þau Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Bjarki Þór Pálsson tóku gullið á Evrópumeistaramótinu 2015 og Egill Øydvin Hjördísarson tók gull á Evrópumeistaramótinu 2016.
Ísland hefur ekki enn eignast gull á HM en Mjölnismaðurinn Björn Lúkas Haraldsson stefnir á gullið í ár.
https://www.instagram.com/p/BbceOY6HDDi/