Jólabasarinn hefur unnið sér sess í hugum vina Grensásdeildar. Á jólabasarnum má meðal annars fá margs konar handunna listmuni, skinnavöru og jólaljós, taka þátt í happdrætti og kaupa nýbakaðar tertur og brauð. Þá hefur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands styrkt viðburðinn með því að gefa Hollvinum Grensásdeildar landsliðstreyjuna sína áritaða og verður hún boðin upp á basarnum, sem og á heimasíðu samtakanna.
Það fór ekki fram hjá neinum hvað Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, studdi vel við landsliðin okkar í knattspyrnu í sumar. Nú hefur hann gefið Hollvinum Grensásdeildar landsliðstreyjuna sína áritaða til að afla fjár fyrir deildina en brýnt er að byggja nýja álmu fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsetinn leggur Grensásdeild lið, í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 hljóp hann og safnaði áheitum fyrir deildina.
Gerið góð kaup til jólanna og styðjið um leið góðan málstað.
Allir fjármunir sem safnast renna óskiptir til uppbyggingar Grensásdeildar.
Öll verkefni Hollvina Grensáss eru unnin í sjálfboðaliðastarfi.