Tíu ára gömul stúlka sem greindist með brjóstakrabbamein aðeins átta ára gömul er sú yngsta sem hefur greinst hingað til. Stúlkan fann hnút á bringunni og fór í brjóstnám þar sem allur brjóstavefur hægra megin var fjarlægður.
Metro greinir frá því að Chrissy Turner sem er frá Utah í Bandaríkjunum hafi farið í aðgerðina árið 2015 og vonast er til þess að meinið dreifi sér ekki frekar.
Foreldrar hennar, Annette og Troy, hafa bæði barist við krabbamein og tóku því enga áhættu þegar hnúturinn fannst og leituðu strax læknisaðstoðar. Það tók þrjá lækna að greina Chrissy og mánuði síðar var hún komin á aðgerðarborðið.
Þrátt fyrir að Chrissy standi sig vel í dag og virðist ekki kippa sér mikið upp við breytinguna á líkama sínum þá hefur móðir hennar áhyggjur af því að þetta muni há henni þegar hún kemst á unglingsárin og aðeins annað brjóstið byrjar að vaxa. Chrissy mun því fara í brjóstauppbyggingu þegar hún kemst á kynþroskaskeiðið.