Síðasta vetur komu mörg hundruð krakkar fram í fjölbreyttum innslögum. Þau tóku meðal annars þátt í skrítnum íþróttagreinum, stórhættulegu spurningakeppninni, skapandi þrautum, fræddu áhorfendur um þjóðsögur og mors-stafrófið, sýndu Trix og Flink, gerðu myndbönd fyrir Söngvakeppnina og kynntu heimabæinn sinn.
Í þessari þáttaröð er haldið áfram á svipaðri braut. Krakkar verða í forgrunni og áhorfendur kynnast krökkum um allt land. Í síðustu viku lauk seinni hringferðinni og hefur Stundin okkar nú stoppað á 40 stöðum um allt land, spjallað við krakka og kynnst þeim og lífinu í bænum þeirra. Þetta er einn vinsælasti liðurinn í Stundinni okkar og greinilegt að krökkum á öllum aldri finnst spennandi að sjá og heyra hvað aðrir krakkar eru að bralla í sinni heimasveit.
Stundin okkar hefur heimsótt: Akranes, Borgarnes, Hvalfjarðarsveit, Stykkishólm, Ólafsvík, Grundarfjörð, Búðardal, Reykhóla, Hólmavík, Ísafjörð, Bíldudal, Bolungarvík, Patreksfjörð, Flateyri, Hvammstanga, Hofsós, Sauðárkrók, Skagaströnd, Siglufjörð, Ólafsfjörð, Dalvík, Hrísey, Grímsey, Akureyri, Mýatnssveit, Húsavík, Raufarhöfn, Vopnafjörð, Neskaupstað, Egilsstaði, Seyðisfjörð, Djúpavog, Vík í Mýrdal, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Hellu, Selfoss, Stokkseyri, Reykjanesbæ og Vestmannaeyjar.