Leikkonan Constance Wu vakti mikla athygli á Twitter í vikunni þar sem henni var hrósað af fjölmörgum fyrir að þora að stíga fram og tjá sig. Constance lét í ljós óánægju sína yfir Óskarsverðlaunatilnefningu Casey Affleck, sem þegar hefur hlotið Golden Globe fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Manchester by the Sea. Ástæða þess að Constance er ósátt er að árið 2010 sökuðu tvær konur leikarann um að hafa brotið á sér kynferðislega. Málin fóru aldrei fyrir dómstóla og voru afgreidd með sáttargreiðslum.
Þó fortíð leikarans dragi ef til vill ekki úr hæfileikum hans, eða geri lítið úr góðri frammistöðu, segir Constance að Akademían, sem veitir Óskarinn ár hvert, verði að sýna ábyrgð. Þó verðlaun séu veitt fyrir leik verði að taka til greina gjörðir í daglegu lífi þeirra sem hljóta slíkan heiður. Hún segir leiklistina snúast um að túlka mannlega reisn í daglegu lífi og þessar ungu konur sem brotið var á séu innilega mannlegar. Kvikmyndabransinn hafi í gegnum tíðina farið illa með konur og oftast reynt að fara hljótt með það eins og fjölmörg dæmi sýna.
Men who sexually harass women 4 OSCAR! Bc good acting performance matters more than humanity,human integrity!Bc poor kid rly needs the help!
— Constance Wu (@ConstanceWu) January 24, 2017
Constance, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Fresh Off the Boat, fullyrðir að henni hafi verið ráðlagt að tjá sig ekki um málið. Það gæti komið sér illa fyrir hennar eigin leiklistarferil. „Fjandinn hafi ferilinn minn,“ segir hún við því. „Ég er fyrst og fremst kona og manneskja.“
I’ve been counseled not to talk about this for career’s sake. F my career then, I’m a woman & human first. That’s what my craft is built on.
— Constance Wu (@ConstanceWu) January 24, 2017