fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024

Hvað er ofbeldissamband, og hvað er til ráða?

Ritstjórn Bleikt
Þriðjudaginn 24. janúar 2017 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þú átt vinkonu. Hún byrjaði að búa með manni fyrir nokkrum mánuðum og samband ykkar hefur breyst talsvert í kjölfarið. Jú, hún er skotin og upptekin af því að vera með honum – en það er meira. Hún kemur æ sjaldnar að hitta vinkvennahópinn, er oftar og oftar með afsakanir fyrir fjarveru sinni, en þegar hún mætir er hún eins og á nálum. Hann er í stöðugu sambandi, hringir, sendir skilaboð og vill vita hvar hún er, með hverjum og hvenær hún kemur heim. Hún afsakar hann þegar einhver í hópnum minnist á hvað hann er stressaður. „Æ hann er bara svo hrifinn af mér.“

Svona gæti byrjunin hljómað fyrir þann sem horfir á ofbeldissamband utan frá.

Við þekkjum öll sögur af ofbeldi, og því miður hafa mörg okkar upplifað það á eigin skinni. Það sem hefur löngum verið kallað heimilisofbeldi ættum við frekar að kalla paraofbeldi – því heimilið á að vera griðastaður og það er eitthvað ljótt við að setja þessi tvö orð saman, heimili og ofbeldi. Þess vegna ætla ég að tala um paraofbeldi, eins og þau hjá Drekaslóð gera.

Paraofbeldi getur tekið á sig alls konar myndir og verið líkamlegt, kynferðislegt eða andlegt. Stundum reynist þolanda erfitt að átta sig á að hann sé staddur í ofbeldissambandi, sérstaklega ef ofbeldið er andlegt. Brotin sjálfsmynd, óljós mörk og langvarandi ójafnvægi í sambandi auka á skekkjuna og gera þolandanum erfiðara um vik.

Á vef Drekaslóðar er að finna eftirfarandi skilgreiningar á ofbeldi:

Líkamlegt ofbeldi

Ýtir, hrindir eða slær til hans/hennar.
Snýr upp á útlimi.
Heldur honum/henni föstum/fastri, varnar útgöngu.
Lemur hann/hana, brennir hann/hana.
Skaðar hann/hana t.d. með hnífi, barefli, belti, ól eða öðru þess háttar

Kynferðislegt ofbeldi

Spottar/niðurlægir hann/hana kynferðislega.
Þvingar hann/hana til kynlífsathafna, sem hann/hún er mótfallin/n.
Hótar að misbjóða börnunum kynferðislega.
Þvingar hann/hana til að horfa á/skoða klám.
Nauðgar honum/henni eða hótar nauðgun.

Andlegt ofbeldi

Einangrun:
Kemur í veg fyrir að hann/hún geti sótt vinnu, skóla, félagsstarf, tómstundastarf.
Kemur í veg fyrir að hann/hún hitti/eigi samskipti við fjölskyldu og/eða vini.
Tekur af honum/henni persónuskilríki, greiðslukort, ávísanahefti, ökuskírteini og fleira þess háttar.
Eltir einstaklinginn, fylgist með honum.
Opnar póst viðkomandi.
Notar símnúmerabirti til að fylgjast með hverjir hringja til einstaklingsins.
Hringir stöðugt heim til að vita hvort hann/hún sé ekki heima.
Fjarlægir símann.
Spyr í þaula hvar viðkomandi hafi verið, hvað hún/hann hafi verið að gera og hverja hún/hann hafi hitt.Tortryggir gjarnan svörin.

Efnahagsleg stjórnun:
Takmarkar aðgang hans/hennar að peningum.
Skammtar peninga, sem varla (eða ekki) duga fyrir nauðsynlegustu útgjöldum.
Þvingar hann/hana til að biðja um hverja krónu og/eða gera grein fyrir hverri krónu.
Segir ósatt um stöðu fjármálanna, eða heldur þeim leyndum.
Kemur í veg fyrir að hann/hún starfi utan heimilis, eða ráðstafar launum hans/hennar.
Tekur af honum/henni peninga s.s. inneign í bankabók, arf o.fl.
Kemur í veg fyrir að hann/hún hafi greiðslukort, banka- eða ávísanareikning.
Ráðstafar einn og oft án hans/hennar vitundar, sameiginlegum peningum þeirra.

Hótanir:
Ógnar/hótar honum/henni án orða, s.s. með bendingum, hreyfingum eða svipbrigðum.
Kastar/eyðileggur hluti.
Eyðileggur persónulegar eigur hans/hennar og/eða annað sem honum/henni er kært.
Meiðir eða fargar gæludýrum á heimilinu.
Meðhöndlar hnífa, vopn eða aðra hluti til að ógna honum/henni.
Hótar að drepa hann/hana eða börnin.
Hótar að fyrirfara sér.
Hótar að láta reka hann/hana úr landi, ef hann/hún er af erlendum uppruna.
Hótar að láta leggja hann/hana inn á geðdeild.
Hótar að segja „öllum“ hvað hann/hún er „geðveik“.

Tilfinningaleg kúgun:
Brýtur hann/hana niður.
Hrópar/öskrar á hann/hana.
Uppnefnir hann/hana, gerir lítið úr því sem hann/hún gerir, hæðist að honum/henni.
Gagnrýnir hann/hana, setur stöðugt út á hann/hana og verk hans/hennar.
Niðurlægir hann/hana fyrir framan aðra.
Lætur hann/hana finna fyrir vanmetakennd og að hann/hún sé heimsk/ur eða barnaleg/ur.
Telur honum/henni trú um að eitthvað sé að honum/henni t.d. geðveiki.
Stöðugar ásakanir, m.a. ásakar hann hann/hana fyrir mistök sem hann sjálfur gerir.
Ruglar raunveruleikanum, m.a. með því að segja að hans/hennar upplifanir, útskýringar og túlkanir séu rangar.

Á upptalningunni hér að ofan sést glögglega að andlegt ofbeldi getur verið margslungið og flólkið. Það sjást engir áverkar, það eru engin högg, og það finnst enginn líkamlegur sársauki. Það getur tekið langan tíma að vinna sér inn traust þolanda, jafnvel þó að vinskapur ykkar eigi sér langa sögu. Alls konar tilfinningar geta flækt málin – það er alveg hægt að elska geranda heitt og innilega – og vonin um að hann breytist og ástandið batni er oft lífsseig.

Hér eru nokkrir punktar sem hafa má í huga ef þig grunar að einhver sem þú þekkir sé í ofbeldissambandi:

Láttu áhyggjur þínar í ljós

Talaðu skýrt um hlutina. Segðu að þú hafir áhyggjur vegna þess að… [við vinkonurnar sjáum þig svo sjaldan núorðið, og hann hringir svo mikið] – eða annað sem þú hefur tekið eftir.

Láttu vita að þú sért til staðar

Þú gætir þurft að reyna nokkrum sinnum að opna umræðuna. Það er alveg mögulegt að viðkomandi bregðist við með vörn eða jafnvel reiði. Ekki taka því illa. Margir þolendur eru háðir gerendum sínum til dæmis fjárhagslega, eða hræddir vegna hótana sem tengjast börnum. Láttu vita að þú munir veita aðstoð við að greiða úr þeim málum.

Mættu í heimsókn

Jafnvel dálítið oftar en vanalega. Þolandinn gæti reynt að loka á þig – eða að hún/hann er dauðfegin/n að fá félagsskap. Mundu að ef viðkomandi reynir að loka á þig er það alls ekkert persónulegt, heldur enn eitt merkið um að ekki sé allt með felldu.

Ekki dæma eða hneykslast

Allir geta lent í ofbeldissambandi – það hefur ekkert með gáfur eða klókindi að gera. Sumir velja að vera í ofbeldissambandi lengur en nokkur skilur – við þurfum líka að vera tilbúin að bera virðingu fyrir slíku vali.

Styddu áfram ef sambandið endar

Það getur tekið óratíma að jafna sig eftir ofbeldissamband og niðurbrot sem hefur kannski staðið svo árum skiptir. Manneskja sem kemst út úr þannig sambandi þarf stuðning vina sinna áfram.

Haltu áfram að bjóða

Þó að manneskjan sem þig grunar að búi við ofbeldi hafi ekki mætt á tíu síðustu vinkonuhittinga er mikilvægt að halda áfram að bjóða henni. Eða draga viðkomandi út í göngutúr – eða eitthvað! Þannig heldurðu samskiptaleið opinni á meðan gerandinn er ef til vill á fullu við að reyna að einangra hana.

Mundu að þú getur ekki bjargað

Það verður alltaf ákvörðun þolandans að stíga út úr ofbeldisaðstæðum. Þú getur stutt, verið til staðar og bent á leiðir – en þú verður ekki bjargvætturinn sem hrífur hana á brott úr aðstæðunum. Sýndu þolinmæði.

Bentu á hjálp

Minntu á þá hjálp sem er í boði, til dæmis Drekaslóð, Kvennaathvarfið og Stígamót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Þórðargleði hjá Degi sem sendir Sjálfstæðismönnum tóninn – „Sniðugt“

Þórðargleði hjá Degi sem sendir Sjálfstæðismönnum tóninn – „Sniðugt“
Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Ljúf lesning fyrir ljóðaunnendur

Ljúf lesning fyrir ljóðaunnendur
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

„Ég er í raun hellamálverk“ – Heillandi föðurráð Bubba

„Ég er í raun hellamálverk“ – Heillandi föðurráð Bubba
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Ólafur velur áhugaverðan U21 árs hóp – Dagur eini frá Íslandsmeisturunum og sex í atvinnumennsku

Ólafur velur áhugaverðan U21 árs hóp – Dagur eini frá Íslandsmeisturunum og sex í atvinnumennsku
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Trump með myrk skilaboð til innflytjenda í lokaræðunni – Segist eiga von á stórsigri

Trump með myrk skilaboð til innflytjenda í lokaræðunni – Segist eiga von á stórsigri
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Alonso vildi ekki fara djúpt ofan í það af hverju hann hafnaði Liverpool í sumar

Alonso vildi ekki fara djúpt ofan í það af hverju hann hafnaði Liverpool í sumar
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Kristrún skýtur föstum skotum – „Bjarni Benediktsson og félagar reyna að beina athyglinni frá þeirra eigin vanhæfni“

Kristrún skýtur föstum skotum – „Bjarni Benediktsson og félagar reyna að beina athyglinni frá þeirra eigin vanhæfni“
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

„Stór áfangi“ í meðferð við brjóstakrabbameini – „Tvöfaldar tímann“

„Stór áfangi“ í meðferð við brjóstakrabbameini – „Tvöfaldar tímann“