Blæðingar kvenna er eðlilegur hluti af líkamsstarfsemi þeirra og grundvöllur fyrir fjölgun mannkynsins. Þegar stúlkur hefja blæðingar er því oft fagnað í mörgum löndum og litið á sem frábær tímamót í lífi hvers kvenmanns. Þrátt fyrir að þetta sé hinn eðlilegasti hlutur getur sá tími mánaðarins verið ansi leiðinlegur og sársaukafullur. Bindi, túrtappar, túrverkir og hormónasveiflur einkenna þennan tíma og á þetta til að vera leiðinlegasti tími kvenna í mánuðinum.
En ef þú hélst að þínar blæðingar væru slæmar þá er þessi eðlilega líkamsstarfsemi litin hornauga í sumum þorpum í vestur Nepal. Buzzfeed greinir frá þessu. Þegar konur hefja blæðingar þá eru þær einangraðar í svokölluðum „chhaupadi“ kofum og verða að dvelja þar þangað til þær eru búnar á blæðingum. Konur sem eru nýbúnar að fæða þurfa einnig að dvelja í þessum kofum.
Ástæðan bakvið einangrunina er sú það er litið á þær sem óhreinar, svo óhreinar að þær mega ekki koma nálægt fjölskyldum sínum né hafa samband við neina karlmenn á meðan þær eru á blæðingum.
Þessi hefð kemur ekki einungis fram við konur á hrottalegan hátt heldur getur hún einnig leitt til dauða þeirra. Nýlega lést 15 ára stúlka í einum af þessum kofum. Fjölskylda hinnar átján ára gömlu Roshani Tiruwa fundu líflausan líkama hennar á gólfinu í kofanum. Kofarnir vernda ekki stúlkurnar fyrir köldu veðri og telur lögreglan að hún hafi kafnað þegar hún kveikti bál til að halda á sér hita.
#Chhaupadideath 15-yr-old dies in Chhaupadi shed | https://t.co/CohM6UP8TP pic.twitter.com/MjLfdI8g8V
— myRepública (@RepublicaNepal) December 19, 2016
Þetta er ekki eina dánartilfellið í þessum kofum, en á hverju ári er tilkynnt um dauða kvenna vegna skjólleysis eða dýraárása. Þessar konur þurfa að lifa með möguleikanum að deyja í hverjum mánuði þegar þær eru neyddar til þess að búa í hörmulegum aðstæðum. Gólfið sem þær þurfa að sofa á er þakið heyi og saur frá búfénu.
Það er ekki nóg með að þær þurfi að lifa við skelfilegar aðstæður heldur mega þær ekki útbúa sinn eigin mat og miklar hömlur eru settar á mataræði þeirra. Þær mega ekki borða kjöt, grænmeti, ávexti né mjólkurvörur. Þær mega aðeins borða þurrmat eins og brauð og hrísgrjón. Þær mega heldur ekki snerta áhöld og vatnslindir.
Í viðbót við einangrun, hræðilegar aðstæður, útilokun frá fjölskyldunni og einhæft mataræði þá mega þær heldur ekki fara í skólann og eru neyddar til þess að stunda líkamlega erfiða vinnu.
Árið 2005 var þessi iðkun gerð ólögleg í Nepal en samt sem áður er hún stunduð á vestrænum svæðum Nepals. Forsætisráðherra Nepal, Pushpa Kamal Dahal, er að hugleiða að setja lög sem refsa fjölskyldum sem leyfa þessa hræðilegu iðkun.