Herferðin snýr að því að safna mánaðarlegum styrktaraðilum fyrir starfsemi Krafts þannig að félagið geti haldið áfram að styðja við bakið á því unga fólki sem greinist með krabbamein og aðstandendum þess.
Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18 – 40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Kraftur fékk þau Annie Mist Crossfit-drottningu, Björgvin Pál landsliðsmarkmann, Jón Jónsson tónlistarmann, Ragnhildi Steinunni fjölmiðlakonu, Sögu Garðarsdóttur leikkonu og Þorvald Davíð leikara til að “bera á sér skallann”. Myndirnar sýna fram á að hver sem er getur greinst með krabbamein en um 70 ungir einstaklingar á aldrinum 18 – 40 ára greinast með krabbamein ár hvert á Íslandi.
Hægt er að styrkja Kraft með mánaðarlegu framlagi og einnig gefst kostur á stökum styrk. Við mælum með því að allir lesendur Bleikt kaupi sér armböndin sem eru til sölu í tengslum við átakið. Armböndin eru með áletruninni „Lífið er núna“ en þau eru alfarið unnin af sjálfboðaliðum.
Í gær voru góðgerðartónleikar á Kexinu þar sem fram komu Emilíana Torrini, Emmsjé Gauti, Hjálmar og Hildur. Á laugardaginn verður perluhittingur á Kexinu þar sem allir eru velkomnir að perla armböndin með áletruninni “lífið er núna”.