Söngvarinn Ed Sheeran sneri nýlega aftur eftir að hafa tekið sér frí frá sviðsljósinu í dágóða stund. Aðdáendur tóku endurkomu hans fagnandi enda færði hann okkur tvö splunkuný lög eins og Bleikt greindi frá fyrir skömmu. Lögin Shape of You og Castle on the Hill nutu strax gríðarlegra vinsælda og slógu öll met á Spotify. Notendur streymdu lögunum yfir 13 milljón sinnum á fyrsta sólarhringnum.
Í dag birti Sheeran allan lagalistann af væntanlegri plötu sinni. Aðdáendur hafa fagnað því mjög og af athugasemdunum að dæma eru þeir mjög þyrstir í fleiri ljúfa tóna. Fyrsta plata Sheeran kom út árið 2011 þegar hann var aðeins tvítugur. Hann gaf út aðra plötu árið 2014 en síðan þá hafa margir beðið óþreyjufullir eftir þeirri þriðju. Það er ákveðið þema í heiti platnanna en sú fyrsta hét +, næsta x, og heiti þriðjuplötunnar er ÷. Hér fyrir neðan má sjá lagalistann sem Sheeran birti á Facebook í dag.