Lagið heitir Saga og vann Bjarki það í samstarfi við vinkonu sína, Þórunni. Myndbandið við lagið gerðu þau síðastliðið sumar á Flateyri og lifnar saga lagsins við með myndbandinu.
„Það hefur alltaf kitlað mig að gefa út píanótónlist, mónótóníska tónlist, lög sem eru ekki hefðbundin popplög með viðlagi og versi,“ segir Bjarki, sem hefur alltaf verið með tónlistina í blóðinu.
„Pabbi setti trommusett fyrir framan mig þegar ég var fimm ára og það hefur alltaf verið mikil tónlist í fjölskyldunni. Ég hef alltaf verið í hljómsveitastússi, en þetta lag er svona mitt og ég hef kannski ekki þorað að gefa mína tónlist út áður. Það hefur alltaf verið mitt áhugamál að semja og spila, en hingað til hef ég ekki farið með þessa tegund af tónlist lengra. Það er oft þægilegra að fela sig á bak við að vera í hljómsveit, en vera bara einn,“ segir Bjarki, sem starfar með hljómsveitunum The Retro Mutants og Frost, sem Bleikt hefur áður fjallað um.
„Ég ákvað að gefa lagið út með vinkonu minni Þórunni, en við höfum unnið saman nokkrum sinnum í gegnum árin. Okkur langaði alltaf að vinna meira saman, síðan kom að því að hún var að flytja til Frakklands, þannig að við kýldum á að gera lagið og taka upp myndbandið. Það rak svolítið á eftir mér að hún væri að flytja út.“
En af hverju varð Flateyri fyrir valinu? „Okkur langaði að fara út á land og taka upp svona ferðasögu. Frændi minn er líka þar og hjálpaði okkur með myndbandið. Þegar það er komið myndband við lagið þá er maður farinn að segja sögu. Myndbandið kom vel út og betur en við áttum von á. Viðbrögðin við myndbandinu voru líka meiri en ég átti von, ég hélt það væru ekki margir að hlusta á instrumental tónlist og það er greinilega markaður fyrir slíka tónlist.“
„Þegar ég horfi á kvikmyndir hlusta ég mikið eftir tónlistinni. Ég fékk viðbrögð frá fólki í kvikmyndaiðnaðinum við laginu, en ég hef einmitt mikinn áhuga á kvikmyndatónlist og að starfa við hana.“
Bjarki stefnir á að gefa út fleiri lög, áður en hann hugsar hvort að hann gefur út plötu. „Ég lít frekar á þetta sem tónverk, en hugmynd að plötu. Næsta verkefni er bara næsta lag og næsta myndband.“ Bjarki á hinsvegar nóg af lögum í „skúffunni“ og segir að það væri draumur að geta starfað eingöngu við tónlistina í framtíðinni.