Við lifum á tækniöld, tíma þar sem allt gerist á ofurhraða og það sem var nýtt í gær getur orðið úrelt á morgun.
Við erum fljót að læra og tileinka okkur nýja hluti þegar kemur að tölvu og tækni og margt af því sem áður fyrr þurfti sérfræðinga til þess að gera getur nánast hver sem er gert. Með þessari miklu tækni og mikla hraða höfum við fengið til okkar ýmis forrit sem nota má til allskonar hluta.
Eitt af því sem tæknin hefur fært okkur eru samfélagsmiðlar. Irkið, MySpace, Facebook, Instagram, Snapchat sem dæmi. Þetta eru allt forrit sem hafa tengt okkur mannfólkið saman landshluta og jafnvel heimsálfa frá hvort öðru. Hugsið ykkur! Við getum fylgst með því í beinni útsendingu hvað Gunna frænka er að gera í Ástralíu!
Þetta er eins klikkað og það er frábært. En með þessari nýju tækni sem samfélagsmiðlar eru opnaðist á nýjar dyr hjá fólki. Allt í einu gat það farið að sýna hvað það á, hvað það var að gera, hversu vel það var að standa sig og að sjálfsögðu er það gryfja sem við stökkvum beint á bólakaf í. Við keppumst við að sýna hversu flott og fínt heimilið okkar er, hversu vel dressuð börnin eru, hvað við kunnum að baka flottar kökur og hvað við splæstum nú í flott veski í utanlandsferðinni…
Sem dregur mig að kjarna málsins. En ég var einmitt í utanlandsferð um daginn og var að rúlla í gegnum myndirnar í símanum mínum að leita að fallegum myndum af okkur fjölskyldunni þegar ég rakst á eina mynd og stoppaði og starði á hana og hún fékk mig til þess að hugsa.
Svona. Svona er lífið mitt. Íbúðin í drasli, dót út um allt, ég ógreidd í náttfötum, krakkarnir í einhverjum ósamstæðum fötum/búningum sem þau völdu sjálf og þau eins klesst upp við mig og þau geta! Þetta er raunveruleikinn minn nánast alla daga. Þreytt ótilhöfð mamma, drasl hingað og þangað og hamingjusöm börn!
Þetta eru myndirnar sem áttu ekki að fara í sýningu á internetinu. Þetta eru myndirnar sem ég ætlaði bara að eiga fyrir sjálfa mig. Myndir af einhverju ótrúlega einföldu augnabliki þar sem ekkert sérstakt er að gerast, ekkert sérstakt er til sýnis og eini tilgangurinn með myndartökunni var fyrir okkur fjölskylduna. Ég settist á gólfið til þess að hugga Viktoríu sem hafði dottið þegar Kristófer kemur og vildi vera með í knúsinu og Óttar dregur upp símann og smellir myndum af augnablikinu.
Þetta eru augnablikin sem við viljum fanga og eiga í minningunni. Ekki uppstilltu myndirnar með gervibrosin. Að minnsta kosti ég!
Í áður umræddri utanlandsferð tók Óttar einnig mynd af okkur mæðgum í skemmtitæki í tívolíi. Það tók mig þrjá daga í að mana mig upp í að setja myndina á instagram því mér fannst ég hafa svo mikla bumbu sem allir færu náttúrulega bókað að spá í! Ekki fallega augnablikinu sem við vorum að eiga, heldur bumbunni minni á myndinni.
Að sjálfsögðu er gaman að eiga fínar og fallegar myndir þar sem allir eru vel til hafðir og skarta sínu fínasta. En þegar það er farið að líta út eins og við búum í íbúð sem klippt er úr tímariti og börnin okkar alltaf klædd í ný og fín föt með engum tómatsósublettum. Þá erum við annað hvort að blekkja sjálf okkur eða aðra.
Þangað til næst,