fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024

Ég fékk ekki að elska pabba minn

Ritstjórn Bleikt
Þriðjudaginn 25. júlí 2017 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég kallaði hann stundum Blóða. Stundum skírnarnafninu hans. En ekki pabba. Það orð var eignað öðrum manni. Ég þekkti ekki Blóða, hafði ekki umgengnist hann frá því ég var lítið barn og ég skildi ekki af hverju fólki fannst skrýtið að ég hefði ekki þörf fyrir að þekkja hann eða umgangast. Í mínum huga stóð hann fyrir flestum þeim löstum og ókostum sem geta prýtt einn mann. Hann hafði svikið mömmu, komið illa fram og hann drakk og ég hafði engan áhuga á að þekkja þannig manneskju. Enda eignaðist ég svo annan pabba svo ég þurfti ekki á honum að halda. Ég bar eftirnafn nýja pabbans og var stolt af því að hann væri ekki jafn gallaður. Einu sinni þegar ég var unglingur var sagt við mig að ég væri lík pabba mínum. Mér fannst gott að heyra það, því það gerði fjarlægðina við Blóða meiri.

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Blóði var ekki ræddur á heimilinu að frumkvæði heimilisfólksins. Ef einhver utanaðkomandi nefndi hann á nafn fylgdi því yfirleitt spennuþrungin þögn eða neikvæð ummæli. Og í þau skipti sem hann hringdi í mömmu til að fá fréttir af mér, þá hringdi hann ekki á réttum tíma. Hann sagði alltaf eitthvað vitlaust og hann var örugglega drukkinn. Ég heyrði hana lýsa þessum símtölum fyrir vinkonum sínum og ég er nokkuð viss um að hún áttaði sig ekki á að ég heyrði. En börn heyra og börn skynja. Og þarna, þegar hún hélt að ég heyrði ekki, upplifði ég svo sterkt hvað hún var reið út í hann, hörkuna gagnvart honum og hvað henni fannst hann ómögulegur. Það hafði mikil áhrif á mig.

Í þau skipti sem mamma deildi með mér sögum af þessum manni, var það litað af hennar afstöðu gagnvart honum. Hvað hann var ólánsamur og hversu illa hann hafði farið með líf sitt. Hún sagði mér líka að hann hefði kosti, og suma hefði ég erft. Og innst inni var hann líka góður maður. En það var þetta slæma sem fékk meira vægi. Miklu meira vægi. Eftir að ég varð unglingur á mótþróaskeiði og hætti ég að láta eins mikið að stjórn mömmu fékk ég oftar að heyra að ég hefði erft gallana hans. Og seinna var ég jafnvel geðveik eins og hann. Ég bara gat ekkert að því gert.

Og þannig er ég alin upp. Í mjög neikvæðu andrúmslofti gagnvart pabba mínum. Dropinn holar harðan stein og eftir því sem tíminn leið varð ég ákveðnari í að hafa ekkert með hann að gera.

En hann kom oft upp í huga mér. Ég man í eitt skipti þegar ég var úti að borða á Horninu með vinum mínum að ég sá mann á næsta borði sem hefði mögulega getað verið hann. Það truflaði mig mjög mikið og ég setti mig í varnarstellingar ef þessi gallaði maður skyldi voga sér að tala við mig.

Það tók mig svo vel á annan áratug frá því ég komst til manns að átta mig á að afneitun mín á föður mínum væri ekki vegna þess hversu gallaður hann var sagður vera. Afneitunin var vegna viðhorfsins til hans á uppeldisheimilinu.

Auðvitað voru aðrir tímar þá og fagleg aðstoð ekki jafn aðgengileg og hún er í dag. Ég trúi því að ef mamma hefði áttað sig á að hún var að brjóta á rétti mínum og á afleiðingunum sem það hefði á mig, hefði hún breytt öðruvísi. Hún er góð kona. Þá hefði hún stuðlað að umgengni okkar því hún vissi að það væri mér fyrir bestu, þó svo að hún væri sár og reið út í hann. Hún hefði fengið hjálp, sett reiðina til hliðar og vandað sig betur í samskiptum við pabba minn. Hún hefði skilið að símtölin voru merki um að hann vildi vera í sambandi og halda tengslum við mig. Hún hefði skilið að hann hefði þurft að drekka í sig kjark til að mæta reiðinni. Hún hefði boðið honum í afmælin mín eða á aðra viðburði sem viðkomu mér. Og ég hefði ekki þurft að eyða öllum þessum árum í að reyna að skilja af hverju ég tók afstöðu gegn mínum eigin föður án þess að hann hefði gert mér nokkurn skapaðan hlut.

Ég hef þurft aðstoð til að komast yfir skömmina sem ég upplifði eftir að ég áttaði mig á þeim gífulega órétti sem ég beitti hann. Að ég skyldi finna upp á þessu ömurlega nafni. Að ég skyldi ekki vilja hitta hann sem fullorðinn einstaklingur. Mann sem elskaði mig og hafði reynt að vera í tengslum, en mætti mikilli hörku og gefist upp.

Ekkert barn á að þurfa að alast upp við þessar aðstæður. Hvort sem það er af hálfu móður eða föður. Ef barn er ekki í tengslum við annað foreldri sitt, eða vill ekki vera það, þá er eitthvað að – og yfirleitt er það ekki útskúfaða foreldrið sem er vandamálið. Foreldrar sem setja börn sín í þessa hollustuklemmu vita ekki ekki hvað þeir eru að vinna þeim mikinn skaða. En skaðinn verður barninu kannski ekki ljós fyrr en miklu, miklu seinna, ef þá nokkurn tímann. Ef bara einhver (annar en pabbi minn) hefði séð hvað var í gangi hjá mér og bent á það. Ég held reyndar að allt stuðningsnet mömmu hafi verið of meðvirkt. Það tók orð hennar trúanleg í blindni, af því hún er svo dásamleg manneskja og það var auðvelt að dæma hann fyrir það sem hún sagði um hann.

Flestir foreldrar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að búa börnum sínum eins góða framtíð og mögulegt er. Mamma er engin undantekning þar á. Hún hefur gert svo ótrúlega margt gott fyrir mig og ég elska hana.

En ég fékk aldrei að elska pabba minn.

 

Höfundur er nafnlaus.
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla og er endurbirt hér með leyfi samtakanna.
Hér geturðu skoðað fleiri greinar og fréttir á vefsíðu Barnaheilla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Dagur gæti fengið sekt verði hann kærður

Dagur gæti fengið sekt verði hann kærður
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Leggur til að dómarinn umdeildi fái hjálp og annan séns

Leggur til að dómarinn umdeildi fái hjálp og annan séns
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Landsliðið mætir Sviss í dag eftir tvö töp undanfarið

Landsliðið mætir Sviss í dag eftir tvö töp undanfarið
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum
„Marius er æxlið“
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Vopnaðir menn rændu „þjóðargersemum“ úr frönsku safni

Vopnaðir menn rændu „þjóðargersemum“ úr frönsku safni
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Sonur mafíuleiðtoga fannst látinn – Óttast að blóðbað sé í uppsiglingu

Sonur mafíuleiðtoga fannst látinn – Óttast að blóðbað sé í uppsiglingu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Mikið áfall fyrir Tottenham – Lykilmaður meiddist gegn City og fór í aðgerð í dag

Mikið áfall fyrir Tottenham – Lykilmaður meiddist gegn City og fór í aðgerð í dag
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Ed Sheeran biðst afsökunar á því að hafa hagað sér eins og asni um helgina

Ed Sheeran biðst afsökunar á því að hafa hagað sér eins og asni um helgina