Á mánudaginn næstkomandi ætla Stelpur rokka! að blása til pallborðsumræðna um götuáreiti. Rætt verður til dæmis um hvað götuáreiti er, hvaða áhrif það hefur á fólk og hvernig það er birtingarmynd misréttis og valdbeitingar. Pallborðsumræðurnar eru í upphafi Druslugönguviku en Druslugangan verður gengin í sjöunda sinn í Reykjavík laugardaginn 29. júlí.
„Ef stelpa svarar ekki „hrósi“ og hlýðir því ekki að brosa er oft öskrað á hana í kjölfarið að hún eigi að vera þakklát og hlýða.
Ef kona tjáir sig á netinu er oft stutt í að hún sé kölluð tussa, hóra, að hún sé með sand í píkunni eða eitthvað þvíumlíkt.
Samfélagið er oft gegnsýrt af þeirri hugsun að KÞBAVD* að hlýða fyrirskipunum frá ókunnugu fólki úti í bæ.
Slíkt áreiti, líkt og að eiga að vera þæg, þakklát og brosa er ein birtingarmynd misréttis.“
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Stelpur rokka! um götuáreiti. Pallborðsumræðurnar verða þann 24. júlí næstkomandi á LOFT í Bankastræti 7 í Reykjavík. Gott aðgengi er fyrir fólk með hreyfihömlun.
*konur þurfa bara að vera duglegar/duglegri
Stelpur rokka! sjá um mánaðarlega viðburði á LOFT í Bankastræti og eru viðburðirnir opnir öllum.