fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024

Leitin að hinu fullkomna andliti

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 16. júlí 2017 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greinin birtist fyrst á vefsíðu Lifandi Vísindi og fékk Bleikt góðfúslegt leyfi til að birta hana með lesendum.


Fegurð fer ekki aðeins eftir smekk eða menningu. Nýjar rannsóknir benda til að skynjun okkar á fallegu andliti sé að stórum hluta meðfædd. Vísindamenn geta meira að segja mælt sérstök heilaviðbrögð gagnvart fegurð.

Það er vissulega óréttlátt, en fjölmargar rannsóknir hafa þó staðfest þetta á síðari árum: Útlitið hefur áhrif á líf okkar allt frá vöggu til grafar. Starfsfólk á fæðingardeildum sinnir fallegu börnunum betur en hinum. Í leikskóla og skóla verða fallegri börnin í uppáhaldi og kennurum hættir til að skella skuldinni fyrir slæma hegðun fremur á þá bekkjarfélaga sem síður hafa útlitið með sér. Fallegu börnin fá hærri einkunnir. Þegar skólagöngu lýkur á fallega fólkið auðveldara með að fá vinnu og fær líka hærri laun en þeir vinnufélagar sem ekki líta jafn vel út. Og þótt við ræðum það ógjarna, á fallegra fólk einnig auðveldara með að eignast maka. Rannsóknir sýna nefnilega að við val á lífsförunauti er útlitið sá einstaki þáttur sem skiptir mestu máli.

Þegar vísindamenn báðu fólk að velja á milli mynda af hinni raunverulegu Ungfrú Þýskaland og myndar sem samsett var úr andlitum allra stúlkna í keppninni, vann sýndarstúlkan stórsigur.

Máttur fegurðarinnar endurspeglast líka í þeim á að giska 170 milljörðum dollara sem snyrtivöruiðnaður heimsins veltir árlega. Á 8. áratug síðustu aldar skýrðu flestir vísindamenn fegurðarskyn okkar – líkt og margt annað – á grundvelli félagslegra viðhorfa og áhrifa fjölmiðla og auglýsinga. En nú er þetta breytt og líffræðilegir þættir komnir í fyrsta sætið.

„Almennt hafa margir rannsakað hvaða andlitsdrættir það eru sem nánast allir upplifa sem aðlaðandi. Nú reynum við hins vegar að komast að ástæðunni,“ segir sálfræðingurinn Ben Jones, sem stýrir „Face Research Lab“ eða „Andlitsrannsóknastofnuninni“ við Aberdeen-háskóla í Skotlandi.

Fegurð virkar sem fíkniefni

Nýjustu rannsóknir sýna ekki aðeins að það eru ákveðin atriði í andlitsfallinu sem skapa fegurð í augum annarra, heldur virðist það eiga sér djúpar lífeðlisfræðilegar rætur að við tengjum ósjálfrátt það fallega við „það góða“.

Hópur vísindamanna undir stjórn Nancy Etcoff hjá Harvard-háskóla sýndi fram á það árið 2001 með heilaskönnun að fegurð virkjar umbunarkerfi heilans á sama hátt og matur, fíkniefni og peningar. Þannig má sem sagt segja að það hafi svipuð áhrif á heilann að sjá fallegt andlit og að borða súkkulaði. Hér er að verki boðefnið dópamín, sem kalla má hamingjuefni heilans, því það skapar vellíðunartilfinningu. Dópamín er talið ýta undir atferli sem stuðlar að vellíðan, svo sem að borða eða stunda kynlíf.

Frá lífeðlisfræðilegu sjónarhorni er þetta greinileg vísbending um að fallegt andlit flokkist undir það sem okkur þykir gott, eitt af því sem við finnum þörf fyrir að komast yfir og fáum seint nóg af. Í rauninni gerum við ósjálfrátt ráð fyrir að fallegt fólk sé bæði duglegt og vel innrætt og þetta leiðir m.a. til þess að við getum hneigst til að kjósa fremur stjórnmálamenn sem líta vel út. Í tilraun einni sýndu John Antonakis og Olaf Dalgas við háskólann í Lausanne í Sviss, fullorðnu fólki ljósmyndir af tveimur frambjóðendum í kosningum í Frakklandi og báðu fólkið að meta hvor frambjóðandinn virtist hæfari á grundvelli myndanna einna. Flestir völdu þann frambjóðanda sem farið hafði með sigur af hólmi. Þegar vísindamennirnir báðu svo börn um að velja þann sem þau treystu betur til að vera skipstjóri á skipi, varð sami frambjóðandinn fyrir valinu. Þetta bendir sem sagt til að kjósendur beiti svipuðum aðferðum og börn þegar þeir setja krossinn í kjörklefanum.

Fríðir svikarar fá harða dóma

Jafnvel í réttarsalnum skiptir útlit hins ákærða máli – en að vísu á annan hátt. Andlitsfríður innbrotsþjófur sleppur að vísu almennt með vægari refsingu en ófríður. Aftur á móti fær fríður fjársvikari harðari dóm en ófríður. Ástæðan er trúlega sú að hann hefur brotið gegn fleiru en lögunum einum með því að misnota þá almennu tiltrú að fríðleikanum fylgi göfugt innræti.

En hvað er það þá í mannsandlitinu, sem í grófum dráttum má segja að sé hringur með tveimur punktum og tveimur strikum innan í, sem vekur okkur svo sterkar tilfinningar. Sem sagt: Hvað er fegurð?

Svo mikið hafa vísindamennirnir nú afhjúpað að fegurðin er ekki einungis spurning um einstaklingsbundinn smekk. Alveg óháð menningarsvæðum og tíma eru það ákveðnir þættir sem bæði ungum og gömlum þykja fallegir. Andlitið þarf að vera samhverft og húðin slétt. Hreinar, hvítar tennur og þykkt og glansandi hár er líka augnakonfekt – eða nammi fyrir heilann ættum við kannski að segja. Heimsæki maður Egyptalandsdeildina í Fornminjasafninu í Berlín, má þar líka greinilega sjá að skynjun okkar á fegurð á sér rætur langt aftur í grárri forneskju. Hér er meira en 3.000 ára gömul brjóstmynd af Nefertiti Egyptalandsdrottningu, sem þrátt fyrir rispur og ákomur virðist enn í dag hafa haft til að bera allt að því ójarðneska fegurð.

Þetta þýðir þó ekki að skynjun okkar á fegurð verði alls ekki haggað. Þegar Evrópubúar og Afríkubúar sáust fyrst, þótti báðum aðilum hinir vera afburða ljótir. Afríkubúarnir með sitt flata nef og þykkar varir, en Evrópumennirnir með framstæð nef og ljóst hörund. Nokkrum öldum síðar erum við orðin svo vön að sjá fólk af óskyldum uppruna að bæði Nicole Kidman og Halle Berry teljast fegurðardísir á alþjóðlegan mælikvarða.

Breytt andlit fallegri

Skoðun okkar á því hvað sé fallegt, má þó greinilega breyta og vísindamenn hafa nýlega sýnt að það getur gerst hratt. Nútíma tölvutækni gerir kleift að breyta andlitsmyndum t.d. þannig að einungis einu litlu atriði sé breytt í einu. Unnt er að gera andlitið fullkomlega samhverft, lengja nefið, auka fjarlægð milli augna o.s.frv. Þannig gefst vísindamönnum nú tækifæri til að afhjúpa leyndardóma fegurðarinnar.

Þetta hefur sálfræðingurinn Gillian Rhodes hjá Vestur-Ástralíu háskóla hagnýtt sér til að sýna fram á hversu auðvelt er að breyta skoðun fólks á fegurð. Hún lét þátttakendur í tilraun sinni skoða andlit sem hún hafði breytt lítils háttar í tölvunni og fimm mínútum síðar lét hún sama fólk meta fegurð annarra mynda, sem ekki hafði verið breytt. Í ljós kom að fólki þótti nú breyttu andlitin eðlilegri og meira aðlaðandi en þær andlitsmyndir sem ekkert hafði verið átt við.

Ekki síður merkilegar eru tilraunir Michaels Websters við Nevada-háskóla, sem sýna að eitt örstutt augnablik dugar til að hafa áhrif á það álit sem fólk skapar sér á andliti. Með tölvuforriti er smám saman unnt að breyta andlitsmynd t.d. úr evrópsku andliti í asískt, eða úr karlmannsandliti í konuandlit. Þegar þátttakendur í þessari tilraun voru beðnir að benda á ákveðinn punkt þar sem karlmaður breyttist í konu, bentu þeir yfirleitt á punkt mitt á milli endapunktanna tveggja. En fái fólk fyrst að sjá mjög áberandi karlmannlegt andlit með áberandi sterkum neðri kjálka, bendir það í næstu umferð á punkt sem er miklu nær karlmannsandlitinu. Sama varð uppi á teningnum varðandi aðrar slíkar myndaseríur og vísindamennirnir telja að heilinn miði ósjálfrátt við aðstæður hverju sinni. Þessi leiftursnöggu viðbrögð fara fram í heilastöðinni möndlungnum eða „amygdala“, sem nánast samstundis ber kennsl á andlit og ákvarðar hvort það sé fallegt eða ekki. Þessi heilastöð er reyndar þegar búin að taka ákvörðun áður en fólk verður meðvitað um andlitið.

Aðlaðandi glæpaandlit

Svo virðist sem heilinn vinni út frá ákveðinni grunnhugmynd um andlit, sem hann á örskotsstundu ber saman við það andlit sem hann sér hverju sinni. Þessi grunnhugmynd er þó ekki alveg föst, heldur verður fyrir áhrifum af andlitum sem fyrir augun ber og mætti kannski kalla hana „meðaltalsandlit“.

Það var frændi Charles Darwin, Francis Galton sem uppgötvaði upp úr 1870 að blanda andlita er meira aðlaðandi en eitt stakt andlit. Galton var eins konar undrabarn, varð uppfinningamaður og naut mikils álits samtíðarmanna sinna. Hann var þeirrar skoðunar að mæla mætti persónuleika manna og greind á grundvelli höfuðkúpunnar. Það var einmitt þegar hann var að gera tilraunir til að bera kennsl á einkenni glæpahneigðar sem hann setti saman ljósmyndir af mönnum, sem dæmdir höfðu verið fyrir alvarlega glæpi, á ljósmyndaplötu. Það kom honum mjög á óvart að bæði honum sjálfum og öðrum þótti þessi blandaða mynd fremur viðkunnanleg. Galton dró þá ályktun að þeir andlitsdrættir sem afhjúpuðu glæpahneigð hlytu að hafa máðst út í ferlinu. Rúmri öld síðar hafa margir vísindamenn sýnt fram á að tölvugert andlit, samsett úr mörgum andlitum, þykir meira aðlaðandi en hin upprunalegu andlit hvert fyrir sig. Á síðasta áratug 20. aldar varð sú kenning útbreidd að andlit sem komast næst meðaltalinu þyki mest aðlaðandi.

En upp á síðkastið hafa vísindamenn þó komist að þeirri niðurstöðu að þessi kenning sé ekki fullnægjandi. Ben Jones og félagar hans gerðu tilraun þar sem meira en 200 sjálfboðaliðar voru látnir meta fegurð kvenandlits sem var samsett úr 60 andlitsmyndum. Eins og vænta mátti fékk samsetta andlitið hærri einkunn en frummyndirnar hver fyrir sig. En þegar vís indamennirnir völdu 15 fallegustu einstöku myndirnar og settu þær saman í eina, þótti sú mynd ennþá fallegri.

„Það sýnir sig að mjög falleg andlit – þau allra fallegustu – eru talsvert sérstök og búa yfir margvíslegum andlitsdráttum sem liggja fjarri meðaltalinu. Algengir andlitsdrættir geta þannig verið hluti fegurðarinnar, en þeir eru ekki allt og sumt. Kannski er þetta spurning um hvað heilinn eigi auðveldast með að skynja,“ segir Jones.

Kynbundin fegurð

Jones og félögum hans tókst að bera kennsl á þau einkenni sem veita kvenandliti fegurð, með því að draga 15 fallegustu andlitsmyndirnar saman í eina. Hér urðu reyndar áberandi einmitt þau atriði sem helst einkenna konur frá körlum, lítil haka, grannt nef og stór augu. Þegar vísindamennirnir juku áhrif þessara kvenlegu andlitsdrátta og þöndu þau út fyrir mörk raunveruleikans – í eins konar „Barbie-andlit“ – þóttu þær myndir enn fegurri. Þetta gilti þótt kvenlegu einkennin væru yfirdrifin upp í 100%. Eftir það þóttu myndirnar orðnar afkáralegar.

Í annarri tilraun sköpuðu vísindamenn „fegurðardrottningu Þýskalands“ með því að setja saman myndir af öllum stúlkunum í keppninni. Í ljós kom að þátttakendum í tilrauninni þótti samsetta tölvumyndin fallegri en myndin af stúlkunni sem vann keppnina.

Meðalandlitið kann fyrst og fremst að verka þægilega á okkur, vegna þess að það kemur heim og saman við almennt álit okkar á andliti og veldur heilanum því ekki neinum erfiðleikum. Raunveruleg fegurð birtist hins vegar í kynbundnum andlitsdráttum. Þetta bendir til þess að skynbragð okkar á fegurð tengist fjölgunarhugsuninni. Þótt engar beinar sannanir liggji fyrir, telja flestir vísindamenn að fegurð sé nátengd heilbrigði. Ný rannsókn sem Gillian Rhod es gerði ásamt fleirum, bendir til samhengis milli góðs ónæmiskerfis karlmanns og þess hversu aðlaðandi konum þykir andlit hans. Vísindamennirnir greindu hér samhengi milli þess hve aðlaðandi maðurinn var og fjölbreytileika í þeim genum sem helst eru ábyrg fyrir svonefndum MHC-ónæmisvörnum. MHC er utan á frumum og ber kennsl á árásarörverur. Meiri fjölbreytni tryggir því víðfeðmara ónæmi og traustari varnir. Í a.m.k. einni rannsókn til viðbótar hefur fundist samsvarandi samhengi milli meðalandlits og færri barnasjúkdóma drengja á barnsaldri. Þetta eru sterkar vísbendingar um að makaval okkar eigi sér a.m.k. ákveðinn lífeðlisfræðilegan bakgrunn en byggist ekki einvörðungu á persónulegum smekk eða félagslegum viðhorfum.

Karlmennska sýnir góð gen

Sumar rannsóknir benda til að ósamhverfa, sem sagt misræmi milli andlitshliða, kunni að stafa af erfðagöllum og að samhengi sé milli karlmannlegra andlitsdrátta, t.d. kröftugs neðri kjálka og færri veikindadaga og styttri veikinda. Karlmannlegir andlitsdrættir tengjast karlhormóninu testósteróni, sem veldur sterklegum neðri kjálka, áberandi augabrúnum og miklum skeggvexti. Testósterón hefur hins vegar líka þann galla að það dregur úr ónæmisvörnum með því að beina mikilli orku í að byggja upp vöðvamassa. Karlmannlegt andlit getur þannig verið eins konar sýnilegt tákn um gott ónæmiskerfi sem er þess megnugt að vernda líkamann, þrátt fyrir að vera í svelti. Sé svo er þetta mannlegt dæmi um hið svonefnda „óhagræðislögmál“ sem líffræðingarnir Amots og Avishag Zahavi settu fram árið 1975, en um það er páhaninn, með sitt ofurstóra og skrautlega stél, gott dæmi.

Þótt undarlegt kunni að virðast hafa menn ekki getað fundið samhengi milli heilbrigðis og kvenlegra andlitsdrátta. Aftur á móti sjá vísindamennirnir greinilega samsvörun milli kvenlegrar andlitsfegurðar, svo sem stórra augna, lítillar höku og fíngerðs nefs og barnsandlits og telja því að hinir kvenlegu andlitsdrættir gefi merki um ungan aldur og frjósemi.

Konur stjórnast af hormónum

Eitt af því athyglisverðasta sem komið hefur í ljós er að kynhormónin hafa mikil áhrif á smekk. Það sýnir sig t.d. að konur hafa mismunandi skoðun á því hvaða karlmannsandlit séu aðlaðandi eftir hvar þær eru staddar í tíðahringnum. Þær kjósa þannig helst karlmannlegan svip þegar mestar líkur eru á getnaði. Það lítur þannig út fyrir að fjölgunarhneigðin og það að tryggja sér sem heilbrigðast afkvæmi gegni hér lykilhlutverki.

En það er ekki einungis smekkur kvenna sem verður fyrir áhrifum hormóna. Með því að mæla testósterón í munnvatni, tókst Jones og félögum í fyrsta sinn árið 2008 að sýna fram á að áhugi karla á kvenlegri konum vex í réttu hlutfalli við testósterón í líkamanum. Það er vitað að magn testósteróns er mjög mismunandi, bæði milli einstaklinga og eftir tímum. Það getur jafnvel sveiflast talsvert á einum degi. Kynhvötin vex líka með auknu testósteróni. Karlmenn eru því alveg jafnt undir áhrifum hormóna og konur. Og einnig hér virðist þetta tengjast fjölgunarhneigðinni.

En málin flækjast þó enn meira. Auk samhverfu, meðaltalsandlits og hormóna, eru vísindamennirnir nú einnig að lyfta hjúpnum af félagslegri túlkun fegurðar. Við erum félagsverur og það hefur sýnt sig að álit okkar á fegurð verður fyrir áhrifum af afstöðu annarra. Það að líkja eftir makavali annarra er útbreytt fyrirbrigði í dýraríkinu allt frá finkum til gúbbafiska og er út af fyrir sig snjöll aðferð ef það er t.d. tímafrekt eða orkukrefjandi að finna rétta makann.

Árið 2007 sýndi David Feinberg, sem þá starfaði við Harvard-háskóla, ásamt breskum starfsfélögum sínum fram á að eðli mannskepnunnar sé kannski ekki ósvipað. Kvenhylli virðist gera karlmann eftirsóknarverðari. Þegar vísindamennirnir sýndu konum myndir þar sem kona brosti til karlmanns, þótti þeim hann meira aðlaðandi en á öðrum myndum þar sem konan brosti ekki, heldur sýndi aðeins hlutlausan svip.

Líkamstjáning eykur fegurð

Edward Morrison hjá Bristolháskóla hefur sýnt að kvenlegar hreyfingar, svo sem að kinka kolli, depla augum eða halla undir flatt, koma bæði körlum og konum til að meta konuna fallegri. En mestu viðbrögðin verða þó „í loftinu“ milli fólks. Þegar augnaráðið mætist, getur skapast mikil vellíðan í heila. Heilaskannanir hafa sýnt að fögur andlit örva verðlaunakerfi heilans, en við bros eða augnsamband, aukast þessi áhrif stórlega. Á hinn bóginn kemur í ljós að sams konar samskipti án vinsemdar í brosi eða augnaráði, hafa þveröfug áhrif.

Það verður æ ljósara að fegurðarskynið er gegnsýrt af kynlífstilhugsun og makavali. Merkilegt nokk hefði slík niðurstaða komið Charles Darwin á óvart, sjálfum höfundi þróunarkenningarinnar. Hann áleit fegurðarhugtakið eiga sér rætur í tilviljanakenndum félagslegum viðmiðum. En á síðustu árum hefur komið skýrt í ljós að svo er ekki. Þvert á móti eiga allmargir þættir hér hlut að máli, allt frá andlitsdráttunum sjálfum og innra hormónajafnvægi, til flókins félagslegs samspils. Allt þetta hefur áhrif á mat okkar á fegurð. Þótt unnt sé að gera tilraunir varðandi einstaka þætti, er raunveruleikinn sjálfur allt annað og enginn getur sagt til um vægi hinna einstöku þátta í heildinni.

Nú má undrast að ekki skuli allt fólk vera afar fagurt, fyrst fegurðin skapar svona mikið forskot. Eitt af svörunum er að finna á þeim óreiðukennda markaði sem makaval fólks þrátt fyrir allt er. Við erum ekki eins og dýr sem afmarka sér svæði og verja það, eða laða til sín maka með söng. Makval okkar stjórnast af miklum fjölda innri og ytri reglna. Fegurðin er einn þeirra þátta sem skipta máli, en t.d. félagsleg staða er annar slíkur þáttur.

Án fegurðar væri heimurinn án efa ekki jafn skemmtilegur staður. En fegurð er þó meira en bara rjóminn á tertunni. Æ fleiri rannsóknir benda til að fegurðarskynið eigi sér djúpar rætur í þróunarsögunni og við ættum sennilega erfitt með að lifa af án hennar.


Hér getur þú lesið fleiri greinar á Lifandi Vísindi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

United staðfestir komu Leny Yoro

United staðfestir komu Leny Yoro
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Greenwood staðfestur hjá Marseille

Greenwood staðfestur hjá Marseille
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Dagur segir freistingar hjá stjórnmálafólki að breikka gjá milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar

Dagur segir freistingar hjá stjórnmálafólki að breikka gjá milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.