Flestir eru eflaust búnir að skipuleggja sumarleyfið í sumar en þeir sem eiga eftir að ákveða hvert ferðinni skal heitið ættu að skoða meðfylgjandi lista. Sérfræðingar Lonely Planet hafa tekið saman þá tíu áfangastaði í Evrópu sem allir ættu að heimsækja árið 2017.
Hér eru staðir sem margir hafa eflaust ekki heyrt um í bland við þekktari áfangastaði. Hér að neðan má sjá þessa tíu staði og stutta útlistum á hverjum og einum.
Le Havre er hafnarborg í Normandy í norðurhluta Frakklands og þar er hægt að finna ýmsa afþreyingu, hvort heldur sem er fyrir þá sem vilja sækja í menningu eða þá sem vilja baða sig í sólinni. Borgin hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 2005 en hún lagðist nánast í rúst í seinna stríði og var endurbyggð að stóru leyti af belgískum arkitekt. Falleg hvít strönd er við borgina og þeir sem vilja sækja í meiri ró geta gert það í nágrenni borgarinnar.
Það má í raun færa rök fyrir því að Pafos séu tvær borgir. Þetta er strandborg á suðvesturhluta Kýpurs og eru íbúar þar og í næsta nágrenni rúmlega 60 þúsund. Borgin er í raun ævaforn og má finna allskonar fallegar minjar í gamla hluta hennar. Nýi hlutinn er nútímalegur og frábær fyrir ferðamenn sem vilja sleikja sólina og slaka á. Pafos var valin menningarborg Evrópu fyrir árið 2017 ásamt Árósum í Danmörku.
Moldóva er kannski ekki það land sem kemur fyrst upp í kollinn þegar hugsanlegir áfangastaðir innan Evrópu eru ræddir. Hér er um að ræða landlukt land í Austur-Evrópu sem á landamæri að Rúmeníu og Úkraínu. Moldóva er einkar fallegt land og þá einkum og sér í lagi sveitir landsins sem eru grónar og sólríkar. Þá njóta vínsmökkunarferðir um sveitirnar vaxandi vinsælda. Ef þig langar að prófa eitthvað nýtt og komast í algjöra afslöppun gæti Moldóva verið málið.
Norðurhluti Þýskalands er að mörgu leyti nokkuð vanmetinn áfangastaður í bókum ferðaskrifstofa og ferðamanna almennt. Staðreyndin er sú að þar er að finna ægifagurt landslag og meira að segja strendur fyrir þá sem hafa áhuga á slíku. Þarna er líka að finna skemmtilegar borgir, Hamburg þar á meðal. Lonely Planet mælir líka með bæjum í norðausturhlutanum sem eiga landamæri að Póllandi.
Alentejo-hérað er í suðurhluta Portúgals og oft kallað menningarhérað Portúgals. Hér er ekki að finna neinar fjölmennar borgir á borð við Lissabon eða Porto en Alentejo er samt sem áður stærsta hérað landsins að flatarmáli. Hér geta ferðamenn fundið sér ýmislegt að gera. Hægt er að fara í ferðir um sveitir héraðsins, fara í vínsmökkunarferðir og bragða á ekta portúgölskum mat.
Leeds er gömul ensk borg með um 700 þúsund íbúa. Aðrar enskar borgir hafa notið meiri vinsælda meðal erlendra ferðamanna en Leeds og nægir í því samhengi að nefna London og Manchester svo dæmi séu tekin. En Leeds hefur upp á ótrúlega margt að bjóða; frábær listasöfn, fjölbreytta bari og veitingastaði og góðar verslanir. Þá er stutt í sveitasæluna í Jórvíkurskíri skammt frá.
Svartfjallaland, rétt eins og Moldóva, er kannski í hópi afskekktari staða á þessum lista, en þó ekki. Svartfjallaland stendur á fallegum stað í suðausturhluta Evrópu á Balkanskaga. Þar er meðal annars að finna fallegar strendur sem liggja að Adríahafi og sumrin eru afar góð á svæðinu. Norðurhluti landsins er kannski ögn óþekktari en engu minna spennandi en staðirnir við strandlengjuna í suðvestri. Þar er að finna tignarleg fjöll og hægt að fara í skemmtilegar göngu- eða hjólaferðir um svæðið. Þar er einnig að finna lítil þorp, fallega skóga og sögulegar byggingar. Fullkominn áfangastaður fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað öðruvísi.
Galisia er lítið hérað á norðvesturströnd Spánar (alveg uppi í vinstra horninu á landakortinu) og þar er að finna flest það sem hugurinn girnist. Fyrir þá sem vilja njóta hins dæmigerða borgarlífs geta gert það í La Coruna, Vigo, Santiago de Compostela eða Lugo og þeir sem vilja njóta náttúrunnar geta gert það svo um munar. Þarna er allt krökt af góðu sjávarmeti og í borginni Santiago er hægt að finna fallegan arkitektúr frá miðöldum og fleira til.
Gotland er stærsta eyjan í Eystrasaltinu og tilheyrir hún Svíþjóð eins og margir vita. Gotland er í uppáhaldi hjá fornleifafræðingum enda hefur ógrynni af fornminjum fundist á henni í gegnum árin. Talið erfallega og strjálbýla eyju í rólegu umhverfi sem auðvelt er að komast til.
Zagreb er höfuðborg Króatíu og hefur upp á svo margt að bjóða. Borgin er tiltölulega ódýr í samanburði við margar aðrar borgir og þá býður hún upp á fallegan arkitektúr, sögulegar byggingar, menningu, listir, tónlist, mat og góðar verslanir fyrir þá sem það kjósa. Borgin er frábær að sumri til og ekki mikið síðri yfir vetrartímann. Veður í Zagreb er allajafna gott yfir sumartímann en á veturna er stutt í falleg skíðasvæði skammt frá borginni.
Birtist fyrst í DV.