Ítalskir vísindamenn hafa nú sett fram nýja kenningu, þess eðlis að G-bletturinn frægi, sé alls ekki lítið, afmarkað svæði, heldur hafi sumar konur óvenju þykkan skeiðarvegg og séu þar af leiðandi færar um að fá svonefnda skeiðarfullnægingu. Við rannsókn sína ómskoðuðu vísindamennirnir lítinn hóp kvenna. Tæplega helmingurinn hafði upplifað skeiðarfullnægingu en hinar konurnar fengu einungis fullnægingu við örvun snípsins. Rannsóknin leiddi í ljós greinilegan mun á þykkt skeiðarveggsins að framanverðu, sem sagt þeim hluta sem liggur upp að þvagrásinni og snípnum. Í þeim konum sem fengið höfðu skeiðarfullnægingu reyndist skeiðarveggurinn um 20% þykkri. Þykktin mældist að meðaltali 12,4 mm en í hinum konunum aðeins 10,4 mm.
Skeiðarveggurinn reyndist jafnþykkur alla leið og það voru því engin ummerki um neinn afmarkaðan blett sem gæti skýrt muninn á fullnægingunni. Ekki vita vísindamennirnir hvernig þykkt skeiðarveggsins geti haft áhrif á fullnæginguna, en geta sér þess til að limur karlmannsins örvi snípinn gegnum skeiðarvegginn og að áhrifin verði því meiri sem skeiðarveggurinn er þykkri.