„Það er búið að vera stórkostlegt að fylgjast með þessum breytingum undanfarin tvö ár. Ég hef verið á hliðarlínunni en samt fylgst vel með og get fullyrt að það hefur aldrei verið jafnmikil fjölbreytni í tískuheiminum þegar kemur að fyrirsætuvali og jákvæðri vakningu gagnvart ólíkum líkamsgerðum eins og núna.“ Þetta segir Inga Eiríksdóttir fyrirsæta í viðtali í nýjasta tölublaði tímaritsins Glamour. Inga hefur vakið athygli fyrir jákvæða vakningu fyrir bættri líkamsímynd og er frábær fyrirmynd.
Inga er einnig í ótrúlega flottum myndaþætti í blaðinu en myndirnar tók Kári Sverriss, Ellen Lofts stíliseraði og Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir sá um hár og förðun.
Síðustu ár hefur mikið verið rætt um tískubransann í tengslum við grannt holdafar. Á dögunum sagði danska fyrirsætan Ulrikke Louise Lahn Høyer frá því á Facebook að hún hafi verið rekin fyrir að vera ekki nógu grönn fyrir tískusýningu. Heilbrigðisráðherra Danmerkur sendi franska tískuhúsinu Louis Vuitton kvörtun vegna málsins sem hefur vakið mikla athygli fjölmiðla. Var Ulrikke meðal annars beðin að fasta í sólahring fyrir sýningu.
Í viðtali við RÚV í gær sagði fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir að átröskun sé félagslega samþykkt innan tískuheimsins. Segir Kolfinna mikilvægt að viðmiðin í tískuheiminum breytist. „Við erum fjölbreytt. Það eru ekki allir sem passa inn í þessa ímynd og hún hefur svo ofboðslega neikvæð áhrif. Og getur hvatt ungar stelpur og unga stráka og fullorðið fólk til þess að þróa með sér átröskun.“
Vonandi er þetta rétt hjá Ingu og að þessi bransi sé að breytast í rétta átt!