Verslunarrisinn H&M bauð nokkrum fjölmiðlakonum til Osló í vikunni og átti Bleikt fulltrúa á staðnum. Á dagskránni var heimsókn í H&M sýningarstúdíóið og þar mátti meðal annars sjá studio-línuna fyrir næsta haust/vetur.
Fyrri hluti haust/vetrar línunnar var til sýnis í stúdíóinu en seinni hlutinn verður ekki frumsýndur fyrr en í ágúst og þá megum við birta myndir af þeim vörum. Línan er fyrir bæði dömur og herra. Dömulínan er innblásin af New York borg og fjölbreytileikanum þar. Stíllinn er fágaður í bland við götutísku og er útkoman virkilega flott. Sniðin eru kvenleg í bland við karlmannlegar línur og eru hentar hönnunin og litirnir Íslenskri tísku mjög vel. Mikið var um einstakar flíkur í sýningarherberginu eins og sjúklega töff vínrautt pils sem var gert úr lakkaðri ull. Herralínan er innblásin af fjallgöngum og er full af ótrúlega töff tæknilegum smáatriðum. Ég held að margar flíkurnar, sérstaklega þykku peysurnar, muni líka sjást á íslensku kvenfólki í vetur enda hentar margt í herradeildinni bæði konum og körlum.
H&M mun til að byrja með vera með deildir fyrir konur, karla og börn ásamt flottri snyrtivörudeild. Við fengum að prófa nokkrar snyrtivörur og segjum ykkur betur frá því á næstu dögum. Þess má geta að H&M mun einnig bjóða upp á snyrtivörur og naglalökk frá öðrum spennandi merkjum og erum við forvitnar að vita hvort verðin verði ódýrari á þeim vörum í H&M en annars staðar á Íslandi.
Við munum alltaf fá „studiolínurnar“ sem koma tvisvar á ári og kemur haust/vetrarlínan í ár um miðjan september. Einnig koma hingað línur sem hannaðar eru í samstarfi við þekkta hönnuði en þær flíkur seljast oftast upp um allan heim og eru framleiddar í takmörkuðu upplagi. Ég vil samt taka fram að sumar flíkur úr studio-línunum og samstarfi H&M við þekkta hönnuði eru bara seldar í netverslun H&M en því miður fáum við ekki netverslun á næstunni. Það er þó verið að vinna í því að ganga frá ákveðnum formsatriðum svo það sé mögulegt en eins og flestir vita senda H&M netverslanir ekki til Íslands og verður það þannig áfram… allavega í bili.
Það olli okkur smá vonbrigðum að heyra að fallega H&M Home línan verður ekki fáanleg strax en stefnt er að því að hún komi samt til Íslands með tímanum. Við munum láta ykkur vita þegar við vitum meira um tímasetningar á því. H&M verslanir annars staðar í Skandinavíu fá nýjar vörur daglega en þar sem við erum eyja þá fá verslanirnar hér á landi vörurnar sendar vikulega með skipi. Okkur leist samt mjög vel á það úrval sem verður í boði fyrir okkur íslendinga og erum spenntar að sjá hvernig búðirnar munu líta út.
Þó að við fáum ekki netverslun og heimilislínu strax verður H&M samt frábær viðbót í úrvalið á fatnaði, skóm, fylgihlutum og snyrtivörum hér á landi. Við á Bleikt munum auðvitað birta fleiri fréttir um úrvalið og verð H&M fram að opnun í ágúst. Seinna í þessum mánuði getum við sagt ykkur frá dagsetningunni á opnuninni í Smáralind þar sem fyrsta H&M búðin verður opnuð.
*Þessi færsla er ekki kostuð.