Ef þú sérð mig einhvern tíma í Costco þá er ég annaðhvort búin að tapa veðmáli, það er verið að gæsa mig eða ég er vel klóróformeruð og búið að troða mér inn í tveggja metra bangsa á leið í karaókístrippmansalsbúðir á Eskifirði.
Ekki misskilja mig (eða jú ef þú vilt), Costco er eðal fyrir stórar fjölskyldur þar sem börnin hlaðin tómstundum detta á fimm mínútna fresti inn í ísskápinn og tæma hann með því að bara draga andann, eða fyrir misgamla fyrrverandi 101 hipstera sem halda ennþá að grænmeti sé sælgæti, og jú það verður að vera ferskt ekki satt?
Og án efa eðal fyrir fólk og fjölskyldur sem hafa hingað til drepið dapran helgartímann í Kringlunni, Smáralind og Elko, því þarna er allt saman komið undir sama þakinu, matur, fatnaður og raftæki, gargandi börn, ömurleg flóðlýsing og föt sem þú passar varla eða illa í.
Ég myndi ekki segja að ég sé haldin sérstakri Costco andúð, eða að ég sé bara með til að vera á móti, ég hef minni samúð en enga með Hagabúllunum Hagkaup, Bónus, Elko, Krónunni og svo framvegis.
Biðraðablæti íslendinga er löngu orðið landfrægt, því miður ekki heimsfrægt eins og hinn íslenski biðraðabolur myndi elska, en fyrir okkur sem sitjum hinu megin biðraðaborðsins þá verður að viðurkennast að við eigum í ástar/haturs sambandi við kjánahrollinn þegar við horfum á ykkur í glímu við hina bolina um innkaupakerrur við nágranna ykkar úr úthverfunum, landsbyggðina og meira að segja 101 Ölstofubytturnar.
Ef þið góða kaupglaða/óða biðraðaglaða fólk mynduð stoppa í eina mínútu, horfa niður á fætur ykkar og súmma þaðan út í alheiminn þá mynduð þið sjá hvað þetta er allt saman fokkt upp!
Já já, ég veit að verslanir á Íslandi eru búnar að níðast og hnoðast í ósmurt eitthvað hér og þar, en það er ekki það sem mér liggur á mínu hjarta, heldur þessi gengdarlausa þörf og löngun til að kaupa, kaupa, kaupa…
Ég hef sjálf hlammast sæl með 3 HM poka fulla af góssi og hamast við að troða því í tösku fyrir heimferð en sú verslunarfullnæging er skammvinn og fljót að klárast eins og botninn á öllum mínum HM ballerínuskóm í gegnum árin.
Ergo það sem ég óttast mest er að Costco sé að gera mínum misbilaða samlanda, er að láta honum líða eins og kóngi í eina sekúndu þegar hann lætur yfirdráttinn dekka sunnudagsfullnæginguna þegar hann skjögrar með 2 troðfullar óþurftar neyslukerrur sem skrapast utan í bílalestina sem bíður óþreyjufull fyrir utan. Og svo þegar heim er komið situr ekkert eftir nema tómir pokar, uppblásin sundlaug, gíraffi, 3 kíló af tómötum og bílskúr sem er dæmdur til að fjúka í næsta sumarroki, 60 kg. af Tobleron sem hætti að vera vinsælt þegar við gátum farið til útlanda oftar en á 10 ára fresti.
Það er satt og rétt að segja að lífið er núna, en lífið er ekki að kaupa og eiga. Lífið er að njóta augnabliksins því það er það eina sem þú gengur að sem vísu og ef þú ert að ná þessum hápunkti lísins í biðröð með glóðheitt Visakort klárt í rennuna þá ertu kannski að misskilja tilgang lífsins.