Sóley Kaldal er áhættustjórnunar- og öryggisverkfræðingur. Hún ritaði nokkur orð í tilefni límmiðaumræðunnar miklu sem hefur farið hátt í fjöl- og samfélagsmiðlum síðustu daga. Sóley bendir á að það sé hættulegt að veita falskt öryggi – og límmiðar séu líklegir til þess.
Athugasemd frá áhættustjórnunar- og öryggisverkfræðingi (þ.e. mér)
Það er grundvallarmunur á að setja á sig hjálm eða bílbelti og því að setja límmiða yfir drykkjarop.
Munurinn er ásetningur.
Ef það væri t.d. hætta á mengaðri rignignu sem gæti borist ofan í drykki fólks, væri mjög sniðugt að hafa límmiða yfir opinu. Náttúruvá og slys eru passífir gerendur og velja sér ekki fórnarlömb. Við gerum það sem við getum til að forðast afleiðingar þeirra.
Þeir sem nauðga með byrlan ólyfjan eru hins vegar agressífir gerendur. Þeir hafa ásetning og límmiði á glasi er í mesta lagi hraðahindrun í útfærslu voðaverka þeirra. Það er lítið sem ekkert sem við getum gert til að verja okkur illum ásetningi meðborgara okkar, því samfélag byggist á gagnkvæmu trausti. Hvar á að draga mörkin?