Nú fer heldur betur að styttast í að H&M opni fyrstu verslun sína á Íslandi. Verslunin muni opna í Smáralind í ágúst á þessu ári. Hún verður um 3000 fermetrar á tveimur hæðum. En H&M mun ekki láta eina verslun duga heldur á líka að opna í Kringlunni og Hafnartorgi í miðbænum.
Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi segir að hjá fyrirtækinu sé fólk hæstánægt með að vera loks að opna verslanir á Íslandi. „H&M snýst um innblástur og persónulegan stíl og því er það okkur mikill heiður að geta boðið íslenskum viðskiptavinum upp á allar okkar fatalínur.”
„Við vitum að lengi hefur verið beðið eftir komu H&M til Íslands og hlökkum mikið til að geta hrifið með okkur þjóðina og staðið undir væntingum. Þar að auki erum við gífurlega stolt af nýráðnu samstarfsfólki okkar í H&M á Íslandi – við höfum fundið frábært teymi fyrir verslanir okkar.“
Í fréttatilkynningu kemur fram að allar fatalínur muni verða í boði í versluninni í Smáralind. Dömu- og herrafatnaður, barnaföt, skór, aukahlutir, undirföt og snyrtivörur. Að auki munu sérstakar línur verða teknar í sölu eins og H&M Studio og Conscious Exclusive.
Það verður spennandi að sjá haustlínur H&M í Smáralindinni í ágúst!