Bílveiki er ein tegund af ferðaveiki (e. motion sickness) sem fólk getur fundið fyrir þegar það ferðast í bíl, flugvél, skipi, lest eða fer í tívolítæki. Ástæðan fyrir veikinni er sú að heilanum berast misvísandi boð frá hinum ýmsu skynfærum líkamans um stöðu hans og afleiðingin er vanlíðan.
Skynfærin sem nema og senda boð til heilans um stöðu líkamans og hreyfingar eru nokkur. Aðal jafnvægisskynfæri manna eru í inneyranu (kuðungnum). Þau eru tvenns konar, svokölluð stöðuhol (posi og skjóða) sem greina þyngdarsviðið og hröðun (breytt hreyfingarástand), og þrennar bogapípur sem stuðla að skynjun hringhreyfingar.
Í jafnvægisskynfærunum er vökvi sem færist til með hreyfingum líkamans og sveigir um leið skynhár á frumunum. Heilinn fær boð um bognun skynháranna og vinnur úr þeim upplýsingar um í hvaða átt líkaminn hreyfist.
Heilinn fær þó einnig upplýsingar frá augum, til dæmis um hvort við erum kyrr í samanburði við umhverfið. Þrýstinemar í húð senda heilanum upplýsingar um hvaða líkamshlutar snerta jörðina og nemar í vöðvum og sinum láta hann vita hvaða líkamshlutar hreyfast hverju sinni. Heilinn og mænan vinna úr öllum þessum mismunandi upplýsingum og túlka þær í heildarmynd af því sem er á seyði.
Ef upplýsingarnar sem heilinn fær samrýmast ekki finnum við fyrir ferðaveiki. Ef maður til dæmis situr í bíl og les bók senda skynfæri inneyrna boð um hreyfingu. Augun sjá aftur á móti aðeins kyrrstæða bók og senda boð í samræmi við það til heilans, það er að maður sé kyrr. Þessar upplýsingar samrýmast ekki og afleiðingin verður vanlíðan sem við þekkjum sem bílveiki.
Það sama á við ef við lendum í ókyrrð í flugi. Líkaminn er þá á hreyfingu en augun senda boð um að við séum kyrr þar sem þau skynja ekki hreyfinguna.
Í vægum tilfellum eru einkenni ferðaveiki órói og höfuðverkur en í alvarlegri tilfellum geta þau verið ógleði, uppköst, óeðlilega mikil svitnun og munnvatnsrennsli auk svima, kvíðatilfinningar og fölva í andliti.
Kvíði fyrir ferðaveiki áður en lagt er af stað gerir illt verra. Gott er að einbeita sér að fyrirbyggjandi aðgerðum. Hér eru nokkur ráð til að draga úr líkum á að fá ferðaveiki:
Sé ferðaveiki þín alvarleg eða ofantalin ráð hjálpa ekki skaltu ræða við heimilislækni þinn um málið.