fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024

Birna Kristel: „Ég vaknaði og mig langaði að deyja“ – Seinni hluti

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 14. apríl 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Lífið mitt var svart og hvítt en núna lifi ég í lit. Ég er full af lífi og tilfinningum. Ég lifi í þakklæti. Ég er hætt að reyna að stjórna lífinu, ég get aðeins stjórnað mér sjálfri. Ég geri mistök og leyfi mér að gera þau og reyni að læra af þeim en ekki rakka mig niður,“

segir Birna Kristel, tvítug kona sem hefur játað sig sigraða af áfengi og fíkniefnum. Hún segir frá erfiðum köflum í lífi sínu og hvernig henni tókst að segja skilið við áfengi og fíkniefni. Í gær birtum við fyrri hluta viðtalsins, sem má lesa hér.

Edrú í þrjá mánuði

Þegar vinur Birnu flutti til útlanda í janúar á síðasta ári neyddist Birna til að flytja aftur til móður sinnar. Hún skráði sig í förðunarskóla og tókst að vera edrú í tvo til þrjá mánuði. Hún lýsir ástæðunni fyrir því á þessa leið:

„Ég vaknaði og meikaði ekki daginn og reyndi að redda mér hjá dópsölum en það tókst ekki. Við reyktum venjulega hjá þvottavél í íbúðinni og stundum datt eitthvað á bak við þvottavélina. Við færðum þvottavélina og þar voru hasskögglar fastir við gólfið og grasmylsna. Við skófum það upp og einnig drulluna innan úr flöskunum sem við reyktum úr og það dugði. Þarna hugsaði ég að það væri eitthvað mikið að mér. Þetta var ógeðslegt. Ég var edrú eftir þetta í tvo þrjá mánuði.“

Byrjaði aftur að dópa

Birnu gekk vel í förðunarskólanum og smám saman fór henni að líða betur. Kennararnir þekktu sögu hennar og sýndu henni mikinn stuðning og skilning og henni fór að líða betur með sjálfa sig. En nokkrum vikum áður en skólanum lauk kynntist Birna strák sem reykti gras og byrjaði sjálf að reykja aftur.

Sagan endurtók sig og hún mætti illa í skólann. Henni tókst þó að útskrifast. Næst lá leiðin að Jökulsárlóni þar sem hún vann við uppvask á hóteli. Þar byrjaði hún aftur að drekka. Eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni frá kokkinum ákvað hún að segja skilið við Ísland og flutti til vinar síns sem bjó í útlöndum.

Tólf bestu tímar ævi hennar

Birna hafði aldrei prófað e-töflu og var hrædd við það. Hún sat í íbúð vinar síns í útlöndum sem lýsti fyrir henni áhrifum efnisins. Eftir því sem hann lýsti því nánar því meira spennandi hljómaði það. Hún ákvað að prófa hálfa töflu. Eftir tæpan klukkutíma leið henni eins og hún væri að deyja. Þrátt fyrir það tók hún einnig hinn helminginn.

„Þá byrjaði ég öll að skjálfa, kjálkinn var á fullri hreyfingu og fæturnir líka. Ég svitnaði og svitnaði, þetta var mjög skrýtið. Ég fann yfirgnæfandi góða tilfinningu sem ég hafði aldrei fundið fyrir á ævinni.“

Birna segir að næstu tólf tímar sem fylgdu hafi verið bestu tólf tímar ævi hennar, en á mánudeginum hrundi heimurinn.

„Ég vakna og mig langaði að deyja, mér leið svo illa. Ég skalf og ældi öllu og kom engu niður. Vinur minn var í vinnunni og ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég fór út á svalir og öskraði eftir hjálp á ensku.“

Að lokum hljóp hún í náttfötunum út á götu og stöðvaði 12 ára stelpu og öskraði á hana að hringja á sjúkrabíl. Hún var ekki með síma og benti á líkamsræktarstöð. „Ég hljóp þangað inn, lagðist á gólfið og sagðist hafa tekið e-töflu og væri að deyja.“

Það kom enginn sjúkrabíll en hjúkrunarfræðingur frá sjúkrahúsinu kom á líkamsræktarstöðina og fór með Birnu aftur upp í íbúð. Birna útskýrði fyrir henni hvað hefði gerst, að þetta væri í fyrsta sinn sem hún hefði tekið e-töflu og henni liði eins og hún væri að deyja.

„Konan segir mér að efnin í e-töflum ættu að vera farin úr mér eftir þrjá daga, þetta var á mánudegi og ég hafði tekið inn töfluna laugardagsmorgni.“

Nokkrum dögum seinna hafði ástand Birnu ekkert skánað. Hún var komin í kvíðakast og vildi helst deyja. Hún fór upp á spítala þar sem hún fékk róandi lyf og var send í blóðprufu í sömu vikunni. Þá kom í ljós að í líkama hennar var að finna rottueitur, sýru og fleiri hættuleg efni, en hin ýmsu eiturefni geta fundist í e-töflum.

„Ég hugsaði hvað ég væri eiginlega búin að gera sjálfri mér. Ég er með hjartagalla og of hár blóðþrýstingur getur reynst mér hættulegur,“ segir Birna og gerði sér ljóst að hún yrði að gera eitthvað í sínum málum. Hún hringdi í móður sína.

„Hún bauð mér að annaðhvort koma heim samstundis og fara í meðferð, eða vera áfram í útlöndum. Hún ætlaði ekki leyfa mér að búa heima ef ég færi ekki í meðferð. Ég kaus að fara heim í meðferð.“

Birtir myndir í forvarnarskyni

Á myndinni hér fyrir ofan er Birna með áfengiseitrun eftir að hafa drukkið of mikið. Hún man ekki mikið eftir kvöldinu sökum ölvunar og það eina sem h´n man er að hún drakk viskí beint úr flöskunni. Næsta sem ún man er þegar hún kom til meðvitundar í sjúkrabíl.

„Ég skyrpti á læknana og sagði þeim að fokka sér og hélt fram að mér hefði verið byrlað og ég myndi aldrei drekka svona mikið. Það fannst ekkert í blóðinu, ég hafði bara drukkið svona mikið.“

Fór inn á Vog í viku

25. júní á síðasta ári er sá dagur sem Birna neytti síðast fíkniefna. Hún fór beint á Vog og var þar í sjö daga. Þar sá hún langt leidda fíkla og hugsaði að hún vildi ekki vera í þeirra sporum eftir tíu til tuttugu ár.

Birna fór í 12 spora samtökin eftir meðferðina. Það er fjöldi 12 spora samtaka um landið sem hjálpa fólki að takast á við alkóhólisma. Þrátt fyrir að hún væri hætt neyslu á þessum tíma var hún enn óheiðarleg og í raun var hegðunin þannig að það var eins og hún væri enn að neyta fíkniefna.

Birnu tókst að breyta hegðun sinni og var á réttri leið. Í nokkra mánuði lék lífið við hana en svo fór að halla undan fæti. Á ný fór hún hegða sér líkt og hún væri í neyslu en þó án þess að taka inn efni eða drekka áfengi, þessu fylgdu lygar og hroki.

„Þarna var ég komin á fallbraut. Mamma spurði af hverju ég færi ekki aftur á Vog í meðferð áður en ég félli. Ég hlustaði á hana og komst inn á Vog sex vikum síðar.“

Birna fór aftur á Vog og ákvað að sigrast á sjálfri sér. „Það var sagt við mig að eymd væri val. Ég réði hvernig dagurinn minn yrði. Ég gæti ekki stjórnað öllu sem gerðist í kringum mig, lífinu eins og það legði sig, en ég réði hvernig ég brygðist við. Ef ég ætlaði að bregðast við með vorkunn, reiði og stjórnleysi, þá gengi ekkert.“

Þarna áttaði Birna sig á hvert vandamálið var. „Ég var vandamálið. Ekki Ísland, ekki mennirnir sem áreittu mig, ekki stelpurnar sem lögðu mig í einelti eða strákurinn sem misnotaði mig, heldur ég.“

Komst að kvíðanum á Vogi

Á Vogi var Birna greind með kvíða. Það gerðist eftir mikið kvíðakast og var vel tekið á því á Vogi. Hún fékk lyf, mætti í hóptíma og tók á kvíðanum ásamt sálfræðingi. Eftir fimmtán daga dvöl á Vogi fór hún í eftirmeðferð á Vík á Kjalarnesi.

„Ég fékk alla þá hjálp sem ég þurfti. Hjálp við kvíðanum, hegðunarvandanum, alkóhólismanum og hjálp við að vinna í sjálfsvirðingunni og hegðun minni í kynlífssamböndum. Þetta er krónískur sjúkdómur sem spyr ekki um aldur eða tíma, hann læðist aftan að þér,“ segir Birna. Hún setur sér aðeins markmið fyrir daginn í dag og veltir sér ekki upp úr fortíðinni. „Markmið mitt er að vera edrú í dag. Ég er að leita að innri frið. Ég er bara ég og er að reyna að sættast við sjálfa mig. Ég er á hárréttri leið, vegna Vogs, Víkur og samtakanna.“

„Það besta sem mamma gerði fyrir mig var að henda mér út“

Aðspurð hvort hún hafi einhver ráð til foreldra sem eiga börn og unglinga í sömu stöðu mælir hún með SÁÁ og að foreldrar setja börnunum sínum mörk. „Það besta sem mamma gerði fyrir mig var að henda mér út. Það var sárt en ég sá að mér. Þegar þú leyfir barni að búa heima hjá þér meðan það er í neyslu þá ertu að gefa grænt ljós. Alkóhólistar lofa öllu en svíkja allt. Barnið verður að reka sig á, en það er bara mín skoðun og eflaust margir ósammála mér. Það er ekkert sem heitir líf þegar maður er í neyslu, ekkert. Það er bara fljótari leið til að deyja.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Lífið var svart og hvítt en núna í lit

„Lífið mitt var svart og hvítt en núna lifi ég í lit. Ég er full af lífi og tilfinningum. Ég lifi í þakklæti. Ég er hætt að reyna að stjórna lífinu, ég get aðeins stjórnað mér sjálfri. Ég geri mistök og leyfi mér að gera þau og reyni að læra af þeim en ekki rakka mig niður.“

Birna nýtur lífsins og það sem er hversdagslegt hjá mörgum er nýtt fyrir henni, eins og að bursta tennurnar á hverjum degi eða fá tekjur í hverjum mánuði, sem ekki fara í fíkniefni. Í dag veit hún hvað hún vill, bæði frá sér sjálfri og öðru fólki.

„Það er ekki sjálfsagt að lifa. Það deyja allir en það fá ekki allir að lifa. Ég er þakklát á hverjum einasta degi, fyrir lífið mitt í dag og að fá að njóta þess. Ég hugsa ekki um gærdaginn eða morgundaginn, aðeins daginn í dag. Bara það að fá að vakna á morgnana er nýtt upphaf, nýtt líf, nýr endir og ný tækifæri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Kaþólsku kirkjunni vantar 100 milljónir

Kaþólsku kirkjunni vantar 100 milljónir
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fer fram á skilnað frá barnsföðurnum sem ekkert hefur heyrst frá í sex ár

Fer fram á skilnað frá barnsföðurnum sem ekkert hefur heyrst frá í sex ár
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvernig tókst United að sannfæra Yoro? – Tilboð Real Madrid sagt miklu lægra

Hvernig tókst United að sannfæra Yoro? – Tilboð Real Madrid sagt miklu lægra
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þarf að borga 2,3 milljónir í sekt út af ólöglegum Airbnb-rekstri – 110 brot og starfsemin talin ógn við öryggi ferðamanna

Þarf að borga 2,3 milljónir í sekt út af ólöglegum Airbnb-rekstri – 110 brot og starfsemin talin ógn við öryggi ferðamanna
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Yamal í fótspor Messi

Yamal í fótspor Messi

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.