fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024

Birna Kristel: „Það besta sem mamma gerði fyrir mig var að henda mér út“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 13. apríl 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef þú leyfir barni að búa heima hjá þér á meðan það er í neyslu, þá ertu að gefa grænt ljós. Alkóhólistar lofa öllu en svíkja allt. Barnið verður að reka sig sjálft á. Það er bara mín skoðun en eflaust margir ósammála mér.“

Þetta segir Birna Kristel, tvítug kona sem hefur játað sig sigraða af áfengi og fíkniefnum. Hún er alkóhólisti sem hefur farið niður í dýpsta myrkur og oft verið hætt komin en með hjálp góðra vina og fjölskyldu rataði hún aftur heim. Birna settist niður með blaðamanni og opnaði sig um áfengisfíkn og kynferðismisnotkun og svo litlu sigrunum og leiðinni til baka sem var þyrnum stráð. Í dag hefur hún verið án áfengis í níu mánuði.

Mynd/Sigtryggur Ari

Fyrsti sopinn

Birna Kristel, sem ólst upp í Keflavík, tók sinn fyrsta sopa af áfengum drykk í Framhaldsskólann á Laugum. Þetta kvöld drakk hún einn bjór en fékk svo mikið samviskubit að hún hringdi undir eins og móður sína til að segja henni sannleikann.

„Mamma sagði: „Þú veist þú getur endað sem alkóhólisti, en þetta er þitt líf“,“

segir Birna. Varnarorð móður hennar höfðu lítið að segja. Birna var í áhættuhópi varðandi misnotkun áfengis vegna sjúkdóms föður og bróður síns, en hún gerði sér ekki grein fyrir hættunni.

„Ég hélt bara áfram að drekka og þetta stoppaði mig ekki.“

Birna hafði engar áhyggjur. Hún drakk aðeins um helgar, en síðan urðu helgarnar lengri og hún drakk frá fimmtudegi til sunnudags. Bjórarnir tíu til fimmtán í hvert sinn.

Alkar í fjölskyldunni

Félagsskapurinn lék stórt hlutverk þegar Birna tók þá ákvörðun að byrja að drekka áfengi. Hún vildi vera með og var einnig forvitin um áhrif áfengis. Bæði faðir hennar og bróðir hafa glímt við sjúkdóminn. Bróðir hennar er edrú í dag en faðir hennar er virkur alkóhólisti. Þrátt fyrir það styður hann Birnu í einu og öllu.

„Ég hef alltaf getað leitað til hans. Kannski ekki þegar ég var lítil en hann reyndi sitt besta. Ég hef sætt mig við að hann sé alkóhólisti. Ég get ekki breytt lífi hans, þetta er hans val,“

segir Birna.

Ofbeldi á heimilinu

Bróðir Birnu var djúpt sokkinn í neyslu þegar hún var yngri og því fylgdi mikið ofbeldi. „Hann var eins og alkóhólistar og fíklar eru oft. Þeir virða ekki nein mörk og vilja oft að fólk tipli á tánum í kringum þá því þeir eiga svo bágt. Það er ekkert að hjá þeim, heldur eru allir aðrir asnar. Þannig hugsaði ég og geri ráð fyrir að bróðir minn hafi gert það líka.“

Birna segist hafa þurft að vera afar varkár í kringum bróður sinn og var oft hrædd við að koma heim. „Ef ég gerði ekki eitthvað sem hann vildi, eða sagði eitthvað sem stuðaði hann, þá lamdi hann mig, til dæmis með ryksugu, þá sló hann mig og henti mér niður stiga.“

Bróðir Birnu var í hennar huga birtingarmynd fíkils. Þegar hún horfði á hann fannst henni ekkert vera að sér. Hennar áfengis- og fíkniefnaneysla var ekki vandamál þegar hún miðaði sig við bróður sinn og hún hélt því sinni neyslu ótrauð áfram.

Í umsjá barnaverndar

Birna gafst upp á framhaldsskólanum á Laugum og dvaldi á Hraunbergi í tvær vikur. Hraunberg er úrræði á vegum Reykjavíkurborgar þar sem börn og ungmenni eru vistuð á vegum barnaverndar. Hún fór á Hraunberg eftir að hafa fengið reiðikast á Laugum. Hún kveðst hafa verið áreitt kynferðislega af öðrum nemendum og í kjölfarið misst stjórn á skapi sínu. Hún skar sig og rústaði herberginu sínu. Þegar heim var komið fékk móðir hennar að kenna á vanlíðan Birnu og var hún þá send á Hraunberg og vistuð þar.

Á sama tíma var Birna einnig í Fjölsmiðjunni, vinnusetri fyrir ungt fólk. Á þessum tíma kynntist hún ungmennum sem notuðu örvandi efni, eins og kókaín, amfetamín og e-töflur. Hún þorði þó ekki að prófa þessi efni af hræðslu við að enda eins og bróðir hennar og faðir.

Birna ákvað að fara aftur í skóla og skráði sig í Flensborg í Hafnarfirði en hætti þar 17 ára og hóf nám í Kvikmyndaskólanum. Til þessa hafði hún aðeins neytt áfengis. Í skólanum kynntist hún bæði fólki sem reykti gras og notaði örvandi efni. Í kjölfarið byrjaði hún að reykja og nota amfetamín.

„Ég man ekki hversu oft ég reykti gras á þessum tíma, en það var ekki daglega samt.“

Mynd/Sigtryggur Ari

Flutti til Keflavíkur

Birna var í Kvikmyndaskólanum í eitt og hálft ár. Þá flutti hún aftur til Keflavíkur þar sem hún kynntist enn verri félagsskap en áður. Hún átti heimili hjá móður sinni en dvaldi sjaldan þar.

„Ég var mikið á flakkinu, alltaf að redda mér gistingu eða partíi,“ segir Birna. Þannig liðu þrjú ár, hún flakkaði um, leitaði að partíi og neyslan ágerðist.

Kynferðislegt ofbeldi

Þegar Birna hugsar til baka telur hún að kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir yfir nokkurra ára tímabil eigi sinn þátt í neyslunni. Það hafi haft gríðarleg sálræn áhrif. Hún var fjórtán ára þegar hún fór inn á Barna- og unglingageðdeild. Það gerði hún eftir að hafa stigið fram og sagt frá ofbeldinu.

„Ofbeldið stóð yfir í fjögur ár, þegar ég var ellefu til fjórtán ára,“

segir Birna og bætir við að hún hafi ekki fyrirgefið honum ofbeldið sem hann beitti hana en hún hefur engu að síður fundið eigin frið. Sá sem beitti Birnu ofbeldi var jafnaldri hennar, sonur konu sem tók Birnu að sér eina helgi í mánuði sem stuðningsbarn því faðir hennar var ekki í stakk búinn til að hugsa um hana á þeim árum. Birna segir konuna hafa verið yndislega og ber góðar tilfinningar til hennar í dag.

„Þetta byrjaði þannig að hann var hrifinn af mér, en ég vissi ekki neitt um kynlíf enda ellefu ára. Hann fikraði sig bara áfram, káfaði á mér og misnotaði mig þær helgar sem ég var hjá þeim. Ég sagði engum frá í fjögur ár.“

Upp komst um misnotkunina eftir sumarbústaðarferð sem Birna fór í með konunni og stráknum. Strákurinn hafði misnotað hana og þegar móðir hennar sótti hana daginn eftir brotnaði hún saman og sagði frá ofbeldinu. Í kjölfarið var hún vistuð á BUGL í tvær vikur. Það hjálpað ekki. Hún veit ekki hvort kynferðisofbeldið hafi haft afleiðingar fyrir strákinn eða hvort hann hafi verið kærður.

„Ég talaði ekkert um þetta. Þegar ég hugsa til baka sé ég að mín kynferðislega hegðun kemur út frá misnotkuninni. Að hafa verið misnotuð, lögð í einelti og kynferðislega áreitt af strákum og körlum hefur haft áhrif á kynlífið í mínum samböndum.“

Eftir að Birna fór að vinna í sjálfri sér, eftir að hafa sagt skilið við áfengi og vímuefni, byggja upp sjálfsvirðinguna og takast á við kvíðann og fleira sem fylgir alkóhólisma sá hún að kynlíf hennar var ekki á hennar forsendum, heldur var hún alltaf að reyna að gera strákum til geðs.

„Mér var drullusama um alla. Mér var alveg sama hversu kjánaleg ég var á Facebook eða Tinder. Það sem ég vildi var bara athygli og þetta var ljót athygli. Ég stundaði gróft og sársaukafullt kynlíf með strákum. Ég hef til dæmis aldrei stundað fallegt kynlíf.“

Birna segir að hún hafi sífellt verið að leika leikrit. Það skipti engu máli hvar hún var, hvort sem það var heima, í skólanum, með vinunum, hún var alltaf í hlutverki, með grímu og dofin tilfinningalega.

„Ég var eiginlega að sækjast í ofbeldið sem ég var beitt að hálfu gerandans, því ég þekkti ekki annað. Ég var alltaf að gera eitthvað sem ég hélt að þeir vildu.“

Varð háð grasi

Þegar Birna var 19 ára var hún hætt í Kvikmyndaskólanum og neyslan orðin harðari. Hún reykti gras og byrjaði að nota amfetamín og kókaín. Hún drakk ekki aðeins tíu, fimmtán bjóra um helgar, neyslan gat varað í nokkra daga og ekkert var sofið.

Eftir að hafa flakkað um í þrjú ár hafði Birna engan samastað og þurfti að flytja aftur til móður sinnar. Hún hafði þá samband við kunningja sinn sem leyfði henni að sofa á sófanum og bauð henni hass.

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég reykti hass. Ég ætlaði bara að vera þarna í þrjá daga en þegar upp var staðið var ég þarna í fimm mánuði, í daglegri neyslu.“

Birna og kunningi hennar urðu bestu vinir á þessum tíma. Hún vann lítið en ef svo bar við var um svarta vinnu að ræða. Hún stal því sem hún þurfti, eins og mat og snyrtivörum, og fékk öll fíkniefni hjá vini sínum og félögum hans. Hver dagur var öðrum líkur í nokkra mánuði og Birna lýsir þeim á þessa leið:

„Ég vaknaði, reykti hass og lagði mig aftur. Vaknaði og fékk mér aftur. Horfði á Friends og át pítsu, fór svo í bað og reykti á meðan ég var í baði. Þetta var bara lífið. Mér fannst ég eðlileg þegar ég var að reykja, en var alveg kolrugluð.“

Á morgun birtum við annan hluta viðtalsins við Birnu þar sem hún segir frá atvikinu sem gerði það að verkum að hún er edrú í dag. Hún segir einnig frá því þegar hún fór í meðferð inn á Vog og Vík, ásamt hvernig hún lifir sínu daglega lífi sem óvirkur alkóhólisti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Kaþólsku kirkjunni vantar 100 milljónir

Kaþólsku kirkjunni vantar 100 milljónir
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fer fram á skilnað frá barnsföðurnum sem ekkert hefur heyrst frá í sex ár

Fer fram á skilnað frá barnsföðurnum sem ekkert hefur heyrst frá í sex ár
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvernig tókst United að sannfæra Yoro? – Tilboð Real Madrid sagt miklu lægra

Hvernig tókst United að sannfæra Yoro? – Tilboð Real Madrid sagt miklu lægra
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þarf að borga 2,3 milljónir í sekt út af ólöglegum Airbnb-rekstri – 110 brot og starfsemin talin ógn við öryggi ferðamanna

Þarf að borga 2,3 milljónir í sekt út af ólöglegum Airbnb-rekstri – 110 brot og starfsemin talin ógn við öryggi ferðamanna
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Yamal í fótspor Messi

Yamal í fótspor Messi

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.